150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér mikið réttlætismál, jöfnun dreifikostnaðar á rafmagni. Það hefur verið baráttumál eins lengi og ég man eftir hjá íbúum í dreifðum byggðum landsins að landsmenn standi jafnfætis varðandi kostnað við húshitun og rafmagnskostnað, burt séð frá búsetu. Þetta er ein af grunnþörfum íbúa og uppspretta orkunnar er af sameiginlegum auðlindum okkar, allra landsmanna. Gjaldskrár í dreifbýli hafa því miður hækkað ört miðað við þéttbýli síðustu ár. Niðurgreiðslur til jöfnunar húshitunarkostnaðar hafa hækkað en það þarf meira til til að jafna að fullu og jöfnunargjald dreifiveitna dugar ekki til að jafna dreifikostnað. Ég hefði viljað sjá stóriðjuna koma þar inn líka í þeirri jöfnun.

Hæstv. ráðherra kom inn á nokkrar útfærslur sem ég tel mjög gott að skoða enn frekar því að við þurfum að fara að ljúka þessari vegferð. Stigin hafa verið mörg góð skref í þessa átt en við þurfum að gera betur. Við leggjum núna meiri fjármuni í jöfnun dreifikostnaðar en það þarf, eins og ráðherra minntist á, 1 milljarð til viðbótar svo að það sé að fullu jafnað.

Það þarf pólitískan vilja, og ég tel hann vera fyrir hendi, og við þurfum að ganga hratt áfram í þeirri vegferð. Við getum horft á símann, þar er ein gjaldskrá fyrir allt landið, við getum horft á verslunina Bónus þar sem er sama verð alls staðar og meira að segja olíufyrirtækin eru með sambærilegt verð úti um allt land. Ríkið verður að sýna gott fordæmi þar sem við erum að fara í orkuskipti og sýna að við séum ekki eftirbátar olíufélaganna í því að hafa jöfnun í orkukostnaði þar sem við eigum þessa auðlind sem við getum nýtt til að framleiða vistvæna og græna orku, rafmagnið.

Heimili og atvinnulíf gjalda þess (Forseti hringir.) í verri búsetuskilyrðum og það kemur niður á samkeppnishæfni atvinnulífsins að þessi ójöfnuður sé enn til staðar.