150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum enn að ræða um jöfnun raforkukostnaðar á landinu og ég held að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því vegna þess að í grein sem hæstv. ráðherra skrifaði 16. júní sl. segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Staðan í dag er að mínu mati beinlínis í ósamræmi við markmið raforkulaga, sem og lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Þetta ójafnræði er einn alvarlegasti ágallinn á þeim raforkumarkaði sem við höfum sett hér upp. Tillögur um aðgerðir til að breyta þessu eru í vinnslu í ráðuneyti mínu.“

Ég geri þá ráð fyrir að vinnan sé á lokametrunum og komi hingað fljótlega. Við vitum í þessu samhengi að þarna eru undir hjá okkur neytendamál, orkuskipti og loftslagsmál.

Það sem ég hef áhyggjur af er það sem sumir grænmetisbændur hafa lýst yfir, að það sé sjálfhætt ef þær hækkanir sem eiga að dynja á þeim verða að veruleika og ekki verði eitthvað gert í þeirra málum. Við verðum að átta okkur á því og ég held að ég segi fyrir hönd flestra að ef maður stendur frammi fyrir því vali að fá íslenska framleiðslu eða erlenda velur maður íslenska. Hún er betri. Það er líka mjög skrýtið að á sama tíma og við erum með mjög hagstæða raforkusamninga við álframleiðslu, kísilál og alls konar svoleiðis framleiðslu skulum við ekki vera með jafn hagstæða samninga um matvælaframleiðslu. Ég spyr bara: Af hverju ekki? Hvers vegna í ósköpunum er ekki séð til þess sama þegar kemur að matvælaframleiðslu okkar, sem myndi spara okkur innflutning á mat fyrir utan hversu gott þetta væri fyrir loftslagsspor okkar og annað í þeim dúr? Þarna munar stórum fjárhæðum. Hvers vegna sjáum við ekki bara til þess? Ef eitthvað er ættu grænmetisbændur að fá lægra orkuverð en nokkurn tímann mengandi álver, kísilál og slík framleiðsla.