150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

upplýsingagjöf um kolefnislosun.

199. mál
[17:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil nýta tækifærið til að taka undir með hæstv. ráðherra og hv. þingmanni sem flytur þessa fyrirspurn um mikilvægi þess að slíkar upplýsingar liggi fyrir og séu hvað skýrastar vegna þess að við kljáumst enn þá við það stórfurðulega vandamál að jafnvel fólk sem ætti alveg að geta vitað betur hafnar einhverju sem er vitað með þeirri vissu sem vísindin bjóða upp á í tilheyrandi málaflokki. Fólk kemur í pontu jafnvel og talar eins og það sé ekki alveg fullkomlega sannfært um að verulegar loftslagsbreytingar eigi sér stað af mannavöldum eða þá að það fer í þann málflutning sem er náskyldur, að ekkert sé hægt að gera í því, alveg sama hverju fólk stingi upp á, það muni aldrei laga vandann, það sé alltaf eitthvað annað. Svo kemur auðvitað aldrei í ljós hvað nákvæmlega þetta annað er.

Eins þreytandi og það er að vera sífellt að tyggja staðreyndir ofan í fólk er sömuleiðis mjög mikilvægt að staðreyndirnar séu hvað skýrastar þannig að (Forseti hringir.) það sé þó hvað auðveldast að kveða niður bábiljur sem eru fluttar fram af fólki sem tekur þátt í umræðunni af allt annarri ástæðu en þeirri að reyna að vernda hagsmuni mannkyns til framtíðar.