150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

upplýsingagjöf um kolefnislosun.

199. mál
[17:07]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með fyrirspyrjanda að nauðsynlegt er, ef menn vilja ræða tölfræði í þessum málum, að rétt tölfræði liggi fyrir. Fyrirspyrjandi leggur áherslu á að auka upplýsingagjöf. Í þessum málum verða upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda ekki hristar fram úr erminni. Losun byggir á ýmsum gögnum, m.a. frá atvinnulífinu, og það að fjölga skýrsluskilum í atvinnulífinu með tilheyrandi kostnaði tel ég ekki málinu til framdráttar og ekki heldur mikið upplýsandi vegna þess að losun er mjög árstíðabundin. Fyrirspyrjandi vísar sérstaklega til þess að upplýsingar verði ekki meira en hálfs árs gamlar eins og stendur í fyrirspurninni. Ég teldi fyrsta skref miklu vænlegra, þ.e. að Umhverfisstofnun myndi ekki nýta þær upplýsingar og þá tölfræði sem hún þegar hefur til að villa fyrir um í umræðunni, með tölum eins og hún hefur t.d. verið að gera núna um losun frá bifreiðum (Forseti hringir.) sem hún hefur haldið fram að væri 34% en ekki 6%, hlutdeildin, sem stofnunin hefur nýverið hins vegar leiðrétt (Forseti hringir.) eftir umræðu um þau efni.