150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

upplýsingagjöf um kolefnislosun.

199. mál
[17:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í þessari umræðu. Ég held að það sem er hér til umræðu sé kannski frekar það að geta komið fyrr fram með gögn og upplýsingar en endilega að fjölga skýrsluskilum og held að það sé kannski ekki það sem hv. þingmaður og alla vega ekki ég var að benda á. Ég tek undir þær útskýringar sem koma fram í máli hv. þingmanns varðandi hlutdeild í vegasamgöngum. Þessi 34% eru það sem er af beinum skuldbindingum Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu. Ef fleiri þættir en þeir eru teknir inn í minnkar vægi þeirra.

Ég er spurður hvort það sé trúverðug stefna í loftslagsmálum með aðgerðaáætlun ef gögn sem notuð eru til að sýna hver losunin hefur verið eru tveggja ára gömul. Ég myndi vilja svara því þannig að alltaf er betra að hafa gögnin nær í tíma. Ég held hins vegar að stefnan geti alveg verið trúverðug. Hvert erum við að stefna? Við höfum séð t.d. að útlosun frá vegasamgöngum hefur aukist á síðustu árum. Það er mikil áhersla á það í stefnu stjórnvalda.

Við fylgjum þeim leiðbeiningum sem koma frá alþjóðasamfélaginu um að orkuskipti skipta hvað mestu máli þegar kemur að því að draga úr losun, þ.e. að fara úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlegar orkuauðlindir, og síðan kolefnisbinding. Ég hef ekki allt of miklar áhyggjur af því að stefnan sé ekki trúverðug þó að við séum með tveggja ára gögn því að það byggir í rauninni á því sem þegar hefur verið losað, þó að vissulega væri betra að geta fylgst með því á hvaða stað við erum og hvernig við getum borið það saman við áætlanir, markmið og aðgerðir sem við erum að gera ef við erum með gögn nær okkur í tíma. Ég held að það sé mögulega hægt að ná því, alla vega í sumum þáttum, (Forseti hringir.) sérstaklega sem snúa að brennslu jarðefnaeldsneytis.