150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

nýskógrækt.

303. mál
[17:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég lagði fyrir hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra svohljóðandi fyrirspurn: Hverjar eru fyrirætlanir stjórnvalda hvað varðar nýskógrækt á næstu árum? Með nýskógrækt á ég við að verið sé að rækta upp nýjan skóg.

Í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er skógrækt viðurkennd sem ein helsta leiðin til að binda kolefni úr andrúmslofti og vinna þannig gegn loftslagsbreytingum. Tvær bókanir við þennan samning, bæði Kyoto-bókunin og Parísarsamkomulagið, styðja þá leið sem skógrækt er til kolefnisbindingar. Innlendar rannsóknir og gögn benda eindregið til þess að það sé raunhæfur möguleiki að binda verulegt magn kolefnis í skógarvistkerfum hér á landi. Ræktaður skógur er nú á innan við 0,5% landsins og því miklir möguleikar að ná verulegum árangri í kolefnisbindingu í skógrækt án þess að breyta ásýnd landsins svo nokkru nemi. Það er t.d. unnt að kolefnisbinda allan útblástur gróðurhúsalofttegunda hér á landi með því að rækta þær trjátegundir sem eru afkastamestar og taka undir það ekki nema 2% af landinu. Slíkt væri hægt að gera hérlendis á landi sem í dag er fullkomlega ónýtt.

Möguleikarnir eru því fyrir hendi til að ná verulegum árangri hér á landi í þessum efnum og vera fremst meðal þjóða heims í að ná því markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust á tiltölulega skömmum tíma. Það var því ánægjulegt að lesa í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum að gert er ráð fyrir eflingu skógræktar í því skyni að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Í áætlun um kolefnisbindingu sem umhverfisráðuneytið kynnti í júlí sl. kemur fram að gert sé ráð fyrir að umfang skógræktar aukist úr 1.100 hekturum í 2.300 hektara frá þessu ári yfir á árið 2022, á næstu þremur árum. Þetta er meira en helmingsaukning.

Það er sérstakt fagnaðarefni, þótt ég vildi hafa þessa aukningu meiri, en meira en helmingsaukning skógræktar á næstu þremur árum er þó ágætisbyrjun. Það kom því verulega á óvart eftir þessar yfirlýsingar af hálfu ráðuneytisins að framlög til skógræktar skyldu lækka milli yfirstandandi árs og þess næsta, 2020.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra auka skógrækt og ná markmiðum þeim sem koma fram í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um meira en helmingsaukningu og binda þannig meira kolefni á næstu þremur árum ef framlög til skógræktar lækka á milli ára? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra fara að þessu? Þetta virðist alls ekki fara saman. Er hæstv. ráðherra sammála mér í því að besta leiðin til að ná að binda kolefni með sem skjótvirkustum hætti sé aukning í nýskógrækt og að nota þær trjátegundir sem reynast best einmitt í þeim tilgangi?