150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

nýskógrækt.

303. mál
[17:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna allri viðleitni til að berjast gegn loftslagsbreytingum sem þó eru óhjákvæmilegar, eru reyndar hafnar og munu valda ómældu tjóni, alveg sama hvað við gerum, en mér finnst mikilvægt að við höfum í huga að við þurfum að auka metnaðinn heldur meira en það einfaldlega að ná einhvers konar kolefnishlutleysi. Að mínu mati er ástæðan sú að pólitíkin í heiminum býður ekki upp á það að brugðist verði við þessum vanda í tæka tíð til að hindra jafnvel enn hræðilegri hluti. Okkur hættir til að setja okkur markmið þar sem við reiknum út hvað við þyrftum að gera ef allar þjóðir tækju sig til og gera það sem þarf að gera og svo er hætt við því að við miðuðum við það markmið. Málið er að þjóðir heimsins munu ekki gera það. Kína mun ekki gera það, Bandaríkin munu ekki gera það og Brasilía mun ekki gera það. Við verðum að vera betri en það skásta sem við mögulega getum ímyndað okkur að við þurfum að vera.