150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

nýskógrækt.

303. mál
[17:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir svör hans og einnig þeim hv. þingmönnum sem gerðu athugasemdir í þessari umræðu. Ég ætla að tala um mikilvægi skógræktar vegna þess að skógur er til framtíðar. Skógurinn tekur ekki mið af hagsveiflum heldur er til staðar fyrir komandi kynslóðir. Það er mjög mikilvægt að rækta upp skóg. Það sparar gjaldeyristekjur þegar við þurfum ekki að flytja inn allt okkar timbur. Skógur veitir skjól, bæði fyrir menn og skepnur, og í skjóli skógar er öll ræktun á landi auðveldari. Skógur auðgar lífríkið og gerir lífið fjölbreyttara. Skógur er auðlind til framtíðar og atvinnuskapandi til langrar framtíðar.

Hæstv. ráðherra ræddi m.a. um sjálfsáningu birkis. Á hvaða hraða ætlar hæstv. ráðherra að binda kolefni ef hann leggur mesta áherslu á að birki fái að sá sér hér um landið? Á hvaða hraða á það að vera?

Hæstv. ráðherra talar um árangurinn sem hann sér fyrir sér að verði hér á landi fyrir árið 2050. Miðað við framlög til skógræktarinnar og miðað við þessar áætlanir um sjálfsáningu birkis er það í höndum einhverra annarra en þessarar hæstv. ríkisstjórnar að binda kolefni hér á landi á næstu árum. Það er verkefni annarrar ríkisstjórnar í framtíðinni. Ég mæli með því að við gyrðum okkur í brók og förum að rækta skóg af alefli í landi þar sem ekki nema 0,5% af landi eru skógi vaxin. Möguleikarnir eru ótæmandi. Við getum verið fremst meðal þjóða í að binda kolefni með skógrækt. Það er auðveld leið og ég hvet hæstv. ráðherra til að vinna (Forseti hringir.) að þessu málefni af einurð.