150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

aðlögun að loftslagsbreytingum og aðgerðaáætlun þar að lútandi.

349. mál
[17:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég vil fyrst nefna að mjög brýnt er að við tryggjum góða vísindalega þekkingu á afleiðingum loftslagsbreytinga á Ísland og hafið umhverfis okkur, þær sem þegar hafa orðið en einkum þó þær sem eru væntanlegar. Þetta er að mörgu leyti í góðum farvegi og er tryggt betur en áður með þeim lagabreytingum sem gerðar voru fyrr á þessu ári.

Með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um loftslagsmál hefur nefnilega verið lögfest að unnar skuli vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi sem m.a. skuli taka mið af skýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC. Samhæfing aðgerða skiptir miklu máli. Tryggja þarf að vísindalegar upplýsingar skili sér til þeirra sem taka þurfa ákvarðanir um skipulag og margvíslegar framkvæmdir sem verða að taka mið af breytingum í náttúrunni, svo sem hækkun sjávarborðs og breytingum á veðurfari og vatnafari.

Áðurnefndar vísindaskýrslur verða samkvæmt lögum unnar af hálfu stjórnvalda og ber Veðurstofa Íslands ábyrgð á þeim með aðkomu sérfræðinga úr öðrum stofnunum og háskólasamfélaginu. Síðasta skýrslan sem unnin var samkvæmt sérstakri beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins kom út árið 2018 og þar er að finna ýmsar niðurstöður sem hjálpa okkur við að skoða verkefnin fram undan sem snúa að aðlögun. Niðurstöðurnar eru m.a. þær að jöklar hopa, rúmmál þeirra minnkar og breytingar verða á vatnafari, úrkomuákefð mun líklega aukast og sjávarborð hækka. Þetta þýðir að flóðahætta eykst og jafnframt álag á fráveitukerfi, þurrkadögum kann að fjölga sem mun mögulega leiða til aukinnar tíðni gróður- og skógarelda. Hætta á skriðuföllum mun líklega aukast vegna bráðnunar á sífrera og hopunar skriðjökla. Súrnun og hlýnun sjávar mun hafa margvíslegar afleiðingar með mögulegum áhrifum á fiskstofna og fiskveiðar.

Þetta gefur vísbendingar um þau mál sem helst þarf að skoða í framtíðinni varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum. Niðurstöður vísindasamfélagsins eru og verða grunnurinn undir aðgerðir okkar hvað þetta varðar.

En þá að gerð aðlögunaráætlunar. Með áðurnefndum breytingum á lögum um loftslagsmál var einnig lögfest að ráðherra skyldi láta vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum á grundvelli bestu vísindalegrar þekkingar. Ég mun sjá til þess að unnið verði eftir þessu ákvæði og er undirbúningur að gerð aðlögunaráætlunar þegar hafinn. Það er ekki beinlínis hlutverk loftslagsráðs að vinna áætlunina sjálfa, ráðherra ber að láta gera það, en ég hef hins vegar beðið loftslagsráð um for- og undirbúningsvinnu sem nýtist við gerð umræddrar áætlunar. Sú vinna hófst síðasta vor með ráðstefnu um aðlögun að loftslagsmálum og vinnustofu þar sem helstu verkefni og áskoranir voru reifaðar. Á þessum viðburðum fékkst mikill og góður efniviður til að vinna úr og nú fer fram vinna á vegum loftslagsráðs sem vænst er að geti orðið góður grunnur fyrir vinnu við heildstæða áætlunargerð stjórnvalda. Þar er farið yfir helstu hugtök og aðferðafræði aðlögunar, stjórnarhætti og skipulag aðlögunarvinnu í öðrum löndum og stöðu slíkrar vinnu á Íslandi í dag ásamt tillögum og helstu umhugsunaratriðum fyrir stjórnvöld. Ég á von á áliti frá loftslagsráði um þetta á næstu vikum.

Hv. þingmaður spyr líka sérstaklega um aðkomu sveitarfélaga. Sveitarfélögin eru að mínu viti mjög mikilvægur aðili þegar kemur að aðlögun að loftslagsbreytingum, ekki síst vegna þess að skipulag er að mestu leyti í þeirra höndum og einnig margvísleg verkefni sem loftslagsbreytingar hafa áhrif á. Má þar nefna fráveitumannvirki. Brýnt er þannig að sveitarfélög séu með í samtali okkar um aðlögun. Loks vil ég nefna að heildstæð stefnumörkun til skamms og langs tíma, skýr markmið og raunhæfar aðgerðir með tryggðri fjármögnun eru forsenda árangurs í loftslagsmálum, hvort sem litið er til aðlögunar eða þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og efla bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Við í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu höfum lagt áherslu á þetta og munum gera áfram.

Ég tek undir þau orð hv. þingmanns að aðlögunin sé afskaplega mikilvægt málefni. Við eigum enn enga áætlun um það á Íslandi en verið er að bæta úr því.