150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

aðlögun að loftslagsbreytingum og aðgerðaáætlun þar að lútandi.

349. mál
[17:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin snýr að því hvernig við stöndum að aðlögun að þeim breytingum sem við munum sjá og óhjákvæmilega verða. Sjálfsagt er satt að þær verði en ekki að þær gerist svona hratt. Hraðinn á loftslagsbreytingunum núna býr til þann yfirþyrmandi vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Á þessum stutta tíma finnst mér mikilvægt að minna á eitt vandamál sem er lítið talað um nema í hálfum hljóðum. Fyrirséð er það vandamál að gríðarlega miklir fólksflutningar verði í framtíðinni að mati margra. Fólksflóttinn frá Sýrlandi er að hluta til vegna loftslagsbreytinga. Þar voru mestu þurrkar í sögu Sýrlands áður en borgarastyrjöldin braust út með tilheyrandi hörmungum og fólksflutningum. Eitt af því sem heimurinn allur þarf að fara að átta sig á er að flóttamannavandinn mun ekki minnka í framtíðinni. (Forseti hringir.) Allar líkur eru á því að hann aukist og þá er mikilvægt að við bregðumst ekki bara við (Forseti hringir.) með þeim ágætu leiðum sem hæstv. ráðherra fór út í heldur þurfum við líka að átta okkur á því að við þurfum að líta á (Forseti hringir.) aðra samfélagsgerð í heiminum. Við þurfum einnig að geta brugðist almennt við samfélagsbreytingum.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir hv. þingmann á tímamörk.)