150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

aðlögun að loftslagsbreytingum og aðgerðaáætlun þar að lútandi.

349. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og svör hæstv. ráðherra. Ég fagna áherslu á þá vísindalegu þekkingu sem hann minntist á vegna þess að hún er undirstaða þess sem við gerum og hún er almennt í góðum farvegi. Ég vil þó nefna að í því sem snýr að hafinu þurfum við að gera betur og það er vegna þess að við ráðum yfir 700.000 km² sjó sem þarf að skoða, bæði súrnunina, djúpstraumana og áhrif loftslagsbreytinga á dýralíf.

Aðeins að loftslagsráðinu aftur sem hefur í raun tvöfalt verkefni. Það hefur eins konar umsjón og er upphafsaðili að tvenns konar áætlunargerð, annars vegar varðandi losun og bindingu og hins vegar aðlögunina. Ég endurtek það sem ég sagði, mér finnst vanta aðila þar í. Ég veit vel að ráðið sjálft er ekki að vinna þessar áætlanir, það er samvinnuverkefni margra aðila, en ég myndi enn telja vitrænt að þar væri undirhópur eða hluti loftslagsráðs með útvíkkuðu formi með fleiri aðilum. Ég nefndi t.d. almannavarnir og Landsbjörg þannig að hluti ráðsins eins og ráðið sjálft starfaði reglulega, það er best að segja það einfaldlega þannig. Þetta er mjög algengt, það eru ákveðnar stofnanir í öðrum löndum sem kallaðar eru „resilience centres“ á erlendum málum, viðnámsstofnanir eða hvað viljum kalla þær. Þetta á kannski ekki við hér vegna smæðar, en engu að síður tel ég að þetta ætti að vera til skoðunar.

Svo vil ég ljúka máli mínu á því að taka undir orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar (Forseti hringir.) um flóttamannavanda sem kann að stafa af loftslagsbreytingum.