150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

taka ellilífeyris hjá sjómönnum.

257. mál
[17:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég lagði spurningu fyrir hæstv. ráðherra um ellilífeyri hjá sjómönnum. Spurningin sem ég lagði fyrir ráðherra er eftirfarandi: Hefur verið kannað hversu margir sjómenn nýta sér rétt til töku ellilífeyris á aldrinum 60–67 ára? Ef svo er, hversu hátt hlutfall sjómanna nýtir þann rétt að hefja töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur?

Hæstv. forseti. Ástæða þessarar fyrirspurnar er sú að ég hef áhyggjur af því að einhver hluti sjómanna nýti sér ekki rétt sinn til ellilífeyris. Sem betur fer er skilningur á því að eðli sjómannsstarfa sé þannig að eðlileg starfsævi þeirra er styttri en flestra annarra. Þetta þarf svo sem ekki að útskýra en sjómannsstörf eru líkamlega mjög erfið og slítandi.

Í dag sér Samgöngustofa um utanumhald lögskráningar en í mörgum tilfellum hafa þessar upplýsingar ekki legið fyrir áður en Samgöngustofa tók við þessu hlutverki. Mikil brögð eru að því að sjómenn þekki ekki rétt sinn til töku ellilífeyris við 60 ára aldur. Þess eru dæmi að erfiðlega gangi að fá upplýsingar um lögskráða daga fyrir þann tíma er Samgöngustofa tók við lögskráningu. Þess eru meira að segja dæmi að kalla þurfi eftir upplýsingum í skjalasöfnum en slíkt er tímafrekt og gefast einhverjir upp við þá vinnu.

Sennilega er erfiðara að afla upplýsinga um eldri lögskráningar, sérstaklega úti á landi þar sem aðgengi að slíkum skjölum er erfiðara. Ég hvet því til þess að sjómenn séu vel upplýstir um rétt sinn.