150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

taka ellilífeyris hjá sjómönnum.

257. mál
[17:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir þetta svar og þær upplýsingar sem ráðherrann las hér upp. Ég er alveg sammála ráðherranum um að það er alveg örugglega af meðvitundarleysi sjómanna sem þessar tölur eru ekki hærri hjá þeim sem sækja þennan rétt sinn. Það er samt einkennilegt að þeim sem nýta sér þennan rétt hafi fækkað mikið frá því fyrir 2014. Sjómenn hafa þennan rétt þegar þeir eru búnir að starfa lengur en 25 ár á sjó og ég beini því til sjómanna sem eru búnir að starfa þetta lengi á sjó að þeir viti af þessum rétti sínum og að hægt sé að sækja hann. Þá þyrfti aðgengi að upplýsingum og eins og kemur fram í þeirri skoðun sem ég hef gert í þessari vinnu að vera betra því það er ekki gott aðgengi en fer vonandi þó að lagast.

Sjómannsstarfið er þannig, og tala ég af reynslu, að flestir sjómenn gera ráð fyrir að þau laun sem þeir hafa séu þau sem þeir vinna sér inn með höndunum. Þeir eru ekki mikið að spekúlera í því á starfsævinni hvaða rétt þeir hafa fyrr en þeir eru orðnir 67 ára gamlir eins og altítt er. Þeir hafa margir hverjir ekki gert sér grein fyrir því að þessi réttur er fyrir hendi og brýni ég þá til að upplýsa sig um það.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir (Forseti hringir.) þær upplýsingar sem hann kom fram með í ræðunni áðan.