150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það hefur stundum borið á því hér í þessum þingsal og víðar, þegar rætt er um landbúnaðarframleiðslu á Íslandi, að menn vitna sífellt til þess hve vel hafi tekist til með grænmetið. Allt í lagi með grænmetið, tollar voru bara felldir niður og allt gengur vel. En svo hefur komið í ljós upp á síðkastið að hlutdeild íslensks grænmetis hefur hríðlækkað. Það er rúmlega 7.000 tonna samdráttur í framleiðslu á níu árum. Og hvers vegna skyldi það vera? Ég hef þá trú að þetta sé vegna þess að grænmetisbændum var skákað upp á hillu þar sem þeir áttu bara að framleiða þrjár tegundir. Þar með læstust þeir inni í gúrkum, tómötum og paprikum, með mikilli virðingu fyrir því grænmeti, í staðinn fyrir að hvatt væri til aukinnar framleiðslu, sem sagt fjölbreyttari framleiðslu. Að sjálfsögðu hefur ekkert verið gert til að laga rafmagnsverð fyrir þessa framleiðslu. Eftir því sem ég best veit er kílóvattstund af rafmagni fyrir grænmetisframleiðslu enn þá ódýrari í Hollandi en hér á landi, hvernig sem það má vera.

Mig langaði til að koma hingað upp til að hvetja grænmetisbændur til dáða. Ég held að nú þurfi dirfsku. Ég held t.d. að það væri athugandi fyrir þá að tékka á því hvort þeir geti ekki komið sér upp vindmyllum við gróðurhúsin til þess að vera ekki háðir ofurvaldi Landsvirkjunar og þeirra félaga. Síðan verða menn líka að vera opnir fyrir nýjungum. Mig langar til að beina orðum að fulltrúum í grænmetisbændastétt og benda þeim á tækifæri. Þannig er mál með vexti að skortur er á vanillu í heiminum um þessar mundir og grammið af vanillu kostar 50–60 amerísk sent á plöntunni, þ.e. 5.000–6.000 dollara kílóið. Þarna er möguleiki sem menn ættu að grípa og þeir eru fleiri til. Menn þurfa að hafa augun opin og þróa framleiðsluna.