150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða störf þingsins og einmitt þess vegna langar mig að ræða störf þingsins. Síðar í dag, ef samningar leyfa, mun hæstv. félags- og barnamálaráðherra mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, frumvarpi sem beðið hefur verið eftir frá því að lífskjarasamningar voru undirritaðir í vor. Ættum við kannski að tala um frumvarp sem beðið hefur verið eftir allt frá því að ríkisstjórnin skrifaði í stjórnarsáttmála sinn að hún ætlaði að lengja fæðingarorlofið?

Við fögnum því að ríkisstjórnin ætli að standa við þau orð sín að lengja fæðingarorlofið en hins vegar verð ég að segja að mér finnst hryggilegt að þessu frumvarpi, þessu mikilvæga máli, sé skutlað inn rétt undir mánaðamót nóvember/desember þegar líður að jólahléi þingsins. Eins og allir vita fara þingmál, hvort sem þau eru hér í sátt allra eða ekki, til umsagnar til almennings og hagaðila og er vaninn að þau fari í þriggja vikna umsagnarferli. Ef þetta frumvarp á að fá þinglega meðferð eins og nauðsyn ber kemur það úr umsagnarferli þegar þingið hefur hafið jólahlé sitt. Þetta eru vinnubrögð sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, býður Alþingi Íslendinga upp á. Þetta frumvarp varðar alla verðandi foreldra og öll væntanleg börn Íslands og við eigum að afgreiða það með handarbökunum í hendingskasti á (Forseti hringir.) einni eða tveimur vikum.

Mér finnst þetta fullkomlega óboðlegt, herra forseti, og vænti þess að forseti ræði við ríkisstjórnina um að fara að stunda faglegri vinnubrögð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)