150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér liggur eitt á hjarta sem kom upp aðeins fyrir lok 2. umr. og það eru fundir meiri hluta fjárlaganefndar með umsagnaraðilum fjárlaga, þ.e. með ráðherra. Meiri hluti boðaði ráðherra á fund til sín sem var haldinn á nefndasviði án þess að minni hlutinn fengi að taka þátt í þeim fundum og fá upplýsingar frá ráðherra og spyrja ráðherra um einstök atriði á málefnasviði hans. Mig langar að vita, virðulegi forseti, hvort formaður telji það ekki dálítið óheppilegt og hvernig það passi eiginlega við aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að hægt sé að hafa sína hentisemi með fundi milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds hvað varðar einstök atriði fjárlaga.(Forseti hringir.) Af hverju fá sumir þingmenn meiri aðgang að ráðherrum en aðrir?