150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það koma formleg erindi inn til þingsins um fjárheimildir hingað og þangað sem eiga ekki að fara þá leið núna samkvæmt lögum um opinber fjármál heldur aðra leið. Fjárlaganefnd sendir réttilega ábendingar þar um til þess sem sendir inn beiðnina og til viðkomandi ráðuneytis. Það er á mjög formlegum nótum. Hérna liggur fyrir frumvarp til fjárlaga, það er allt mjög formlegt. Eftir því sem ég heyrði á svari hæstv. formanns fjárlaganefndar er það síðan allt í einu ekki formlegt þegar meiri hluti fjárlaganefndar fær ráðherra á fund til sín á nefndasviði Alþingis til að útskýra hvað varð um þessar fjárbeiðnir og minni hlutinn fær ekki að koma þar að eða spyrja nánar um þær skeytasendingar sem fara þarna á milli framkvæmdarvalds og löggjafans. Í lögum um Stjórnarráð Íslands eru skilgreind formleg og óformleg samskipti sem ráðherra á að skrá. (Forseti hringir.) Það er mjög skýrt. Ég sé ekki hvernig er hægt að fela sig á bak við það (Forseti hringir.) að þetta sé óformlegt, bara alls ekki. Stærsta mál hvers ár liggur hérna fyrir þinginu (Forseti hringir.) og það getur ekki verið neitt óformlegt í samskiptum ráðuneyta og fjárlaganefndar hvað það varðar.