150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Við áttum nokkur orðaskipti í þingsal í gær um viðbótarfjárheimildir vegna hins svokallaða Samherjamáls, sér í lagi til skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara. Þar var fullyrt, án þess að farið væri nánar út í með hvaða hætti það væri afgreitt, að fyrir þessu væri nægjanlegt svigrúm í fjárheimildum og mætti beita jafnvel varasjóði. Mér fundust svör ráðherra nokkuð óljós en í dag sjáum við þær fréttir að héraðssaksóknari hefur óskað eftir heimild til að ráða sex starfsmenn frá byrjun næsta árs og jafnvel tvo til viðbótar sem gæti þýtt að heildarútgjöld embættisins ykjust um 10–15% á ársgrundvelli. Það er allnokkuð og ég geri ráð fyrir að það sé talsvert umfram það svigrúm sem sérstakur varasjóður þar dekkar. Ég spyr því hv. formann fjárlaganefndar: Hefur hann fengið fullnægjandi skýringar á því (Forseti hringir.) frá fjármálaráðherra hvernig þessum útgjöldum verði mætt þannig að þau rúmist innan laga um opinber fjármál?