150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þess vegna sem ég spyr. Í gær var fullyrt í þingsal að nægjanlegt svigrúm væri til að mæta þessu, en hér er einmitt enginn varasjóður til að mæta beiðni sem þegar er komin frá þessu embætti, að starfsmönnum verði fjölgað án þess að það sé tilgreint sérstaklega vegna hvaða verkefna. Það má lesa á milli línanna að það tengist ekki hvað síst Samherjamálinu sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að nægjanlegu fjármagni verði varið til. Hún hefur hins vegar ekki gert neinar ráðstafanir vegna þess í tengslum við fjárlagaumræðuna núna.

Ég verð að viðurkenna að mér þykir ekki sérlega góður bragur á því að það sé einfaldlega ekki klárað að auka fjárheimildir þessa embættis. Það er talað um sex til átta starfsmenn til viðbótar við þá rúmlega 50 starfsmenn sem þar eru. Það er umtalsverð aukning á umsvifum embættisins og væri mjög eðlilegt að það væri klárað í þingsal, en því var hafnað af meiri hlutanum. Þess vegna spyr ég enn og aftur: Hefur formaður fjárlaganefndar fengið fullnægjandi svör við því (Forseti hringir.) hvernig ríkisstjórnin hyggist mæta þessu?