150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á svipuðum slóðum því að þetta skiptir miklu máli. Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar er beinlínis vísað í notkun á almennum varasjóði til að mæta fjárþörf eftirlitsstofnana vegna Samherjamálsins en samkvæmt lögum er nýtingin á þeim sjóði háð ströngum skilyrðum og ákvæðin ber að túlka þröngt. Þetta stendur í greinargerð. Þar segir m.a. að útgjöldin þurfi að vera ófyrirséð og það eru þau ekki fyrir árið 2020. Það er ekkert ófyrirséð að það þurfi að rannsaka Samherjamálið á næsta ári. Til viðbótar verða útgjöldin samkvæmt lögum að vera þannig að ókleift sé að mæta þeim með öðrum hætti, eins og segir í lögunum. Þetta er ekki heldur uppfyllt því að við erum enn með opin fjárlög sem við erum að ræða hér í dag. Sé ætlunin að nota varasjóði málaflokka þurfa þau útgjöld líka að vera óvænt, samkvæmt lögum, sem þau eru ekki í þessu tilviki þegar litið er til næsta árs.

Mig langar sömuleiðis að minna formann fjárlaganefndar á að varasjóður (Forseti hringir.) fyrir héraðssaksóknara er tómur fyrir 2019 og 2020. (Forseti hringir.) Má þá skilja það þannig að það komi ekki króna til héraðssaksóknara vegna (Forseti hringir.) Samherjamálsins? Hvernig ætlar hv. þingmaður að öðru leyti að setja fjármuni til héraðssaksóknara?

(Forseti (GBr): Hv. þingmenn eru beðnir um að virða tímamörk.)