150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum í 3. umr. um þetta blessaða fjárlagafrumvarp og ætla ekki að taka mikinn tíma í það, það er borin von að ná fram einhverri breytingu á því hjá þessum meiri hluta. Ég vil samt vekja sérstaka athygli á því hvað það eru sérkennileg vinnubrögð hjá meiri hluta Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins að treysta sér ekki til að samþykkja eina einustu breytingartillögu frá stjórnarandstöðunni þótt sumar þeirra séu efnislega nákvæmlega eins og fyrri tillögur þessa sama fólks. Þetta er ótrúlegt, herra forseti.

Það er einnig sérstaklega áhugavert að sitja í þessari blessuðu fjárlaganefnd þar sem heilmikil vinna á sér stað, þar er tekið á móti fjölmörgum gestum og umsagnaraðilum og farið yfir vel gerðar umsagnir, en nánast ekkert af því skilar sér í breytingartillögum nefndarinnar. Þær breytingar sem eru gerðar á fjárlagafrumvarpinu eru nánast allar frá ráðherranum. Nefndin fær skjal frá hæstv. fjármálaráðherra og það er einfaldlega stimplað. Stundum velti ég fyrir mér til hvers við erum með þessa nefnd þegar hún gerir ekki neitt með þær umsagnir sem hún fær. Mér finnst þetta vera lítillækkandi fyrir alla sem sitja í nefndinni og þá sem sitja þetta blessaða þing. Löggjafarvaldið er hjá Alþingi en við förum ekkert með það. Við treystum okkur ekki til að gera eina einustu efnislega breytingu, nánast enga, á frumvarpinu. Við gerum tæknilegar breytingar eins og einhverjir embættismenn, með fullri virðingu fyrir þeim. Þetta er afskaplega sérkennilegt. Ég veit alveg að kollegar mínir í fjárlaganefnd, þó að þeir styðji þessa ríkisstjórn í dag, eru mér sammála og ég veit að þetta er ekki nýr vandi. Þetta var líka svona hjá fyrri ríkisstjórnum en ég bara bið hv. þingmenn, við hljótum að geta komist upp úr þessum hjólförum. Við erum kosin hingað vegna þess að við höfum einhverjar pólitískar hugsjónir, við erum ekki embættismenn, við sækjum umboð okkar til kjósenda og við hljótum að geta endurspeglað okkar pólitík í fjárlaganefnd og náð einhverju í gegn þar. Þetta er ótrúlega dapurleg staða í fjárlagavinnunni. Ég velti því fyrir mér til hvers maður er að mæta fyrst þetta er alltaf svona. Þetta er þriðja árið í röð. Nú er bara eitt fjárlagaár eftir, eftir að við afgreiðum þetta frumvarp. Þá er þessi ríkisstjórn sem betur fer farin frá völdum og kemur vonandi aldrei aftur. (LRM: Vertu ekki of viss.) Ég vona að ég sé sannspár um þetta því ég held að þjóðin eigi betra skilið. Við erum kosin til að standa við okkar loforð og það er alveg augljóst að hér eru stór og þung loforð svikin. Það þarf ekkert að hlusta á stjórnarandstöðuþingmanninn Ágúst Ólaf frá Samfylkingunni, hlustið bara á Öryrkjabandalagið, hlustið á Alþýðusamband Íslands, verkalýðshreyfinguna, stúdenta, hjúkrunarheimilin úti á landi, heilbrigðisstofnanir úti á landi, Landspítalann, framhaldsskólana, kvikmyndageirann. Af hverju hlustið þið ekki á þessa aðila? Enginn þeirra er ánægður með þetta fjárlagafrumvarp og þið hafið samt úr 1.000 milljörðum að spila. Það er nú algert afrek að afgreiða fjárlagafrumvarp upp á 1.000 milljarða með jafn mikilli óánægju og raun ber vitni. Það er alveg ótrúlegt, herra forseti.

Það er kannski eins og rispuð plata í hugum sumra, en engu að síður nauðsynleg plata að mínu mati, að fara aðeins yfir hvað er í þessu frumvarpi. Ég ætla að hlaupa yfir það helsta og ég veit að mínir félagar hafa heyrt þetta áður en þetta er bara satt og ekkert af þessu hefur verið hrakið, ekki neitt. Lítum bara á háskólastigið. Hér næst ekki að uppfylla það loforð sem er í stjórnarsáttmálanum um að fjármögnun háskólastigsins nái fjármögnun OECD-ríkjanna á næsta ári. Það stendur í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Ef ég skoða fjármálaáætlunina, sem nær til fimm ára, á að ná fjármögnunarstigi Norðurlandanna. Við náum því ekki heldur.

Númer tvö. Framhaldsskólarnir fá lækkun milli ára. Það er óumdeilanlegt Hvenær var því lofað í kosningabaráttunni fyrir tveimur árum? Ég man ekki eftir einum einasta fundi hjá Framsóknarmönnum þar sem þeir sögðust ætla að lækka fjármuni til framhaldsskólanna. Ég man hins vegar eftir loforðum hér þar sem var sagt að styttingarpeningarnir svokölluðu ættu að haldast auk þess sem lofað var stórsókn. Ég veit mætavel að þegar framhaldsskólinn styttist um eitt ár þá fækkar framhaldsskólanemum og þá er hægt að reikna sig upp í að að peningur per haus hækki en það var ekkert loforð um það. Því var lofað að þeir peningar myndu haldast og síðan átti að bæta í. Í nefndarálitinu við 2. umr. kom skýrt fram hvaða framhaldsskólar fá niðurskurð á milli ára. Eina stórsóknin sem ég sé í þessu er stórsókn í yfirlýsingum ráðherra um að hér sé verið að spýta í, í allar áttir, á meðan raunin er allt önnur.

Kvikmyndageirinn. Hvenær var honum lofað að hann fengi 30% niðurskurð þegar litið er til endurgreiðslu kostnaðar vegna kvikmyndagerðar? Ég man ekki eftir því kosningaloforði en það er í frumvarpinu. Hvenær var því eiginlega lofað, herra forseti, að lækka ætti fjármuni til Tækniþróunarsjóðs, Innviðasjóðs, lýðheilsusjóðs, sprotasjóðs, Jafnréttissjóðs? Ég man ekki eftir því kosningaloforði. Og hvenær, herra forseti, var því lofað fyrir tveimur árum að ríkisstjórnarflokkarnir, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn, látum Sjálfstæðismenn aðeins hvíla í bili, ætluðu að standa fyrir frumvarpi þar sem lækkaðir yrðu fjármunir til hjálpartækja, til endurhæfingarþjónustu, til verndaðra vinnustaða öryrkja, til vinnusamninga öryrkja? Svona mætti lengi telja.

Fjármunir eru lækkaðir til almennrar löggæslu, til Persónuverndar og til skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara milli ára, þeir halda ekki einu sinni í við verðbólgu. Þetta kemur bara skýrt fram og þessir flokkar treysta sér ekki til að samþykkja breytingartillögur — þið þurfið ekkert að samþykkja breytingartillögur okkar í Samfylkingunni, látum það vera fyrst ykkur líður svo svakalega illa með að samþykkja eitthvað frá einhverjum sem er í andstöðuflokki. Leggið bara fram eigin breytingartillögu þar sem þið tryggið fjármuni til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra. Ég skal glaður samþykkja það. En það virðist vera of erfitt. Það má bara alls ekki setja krónu til viðbótar til héraðssaksóknara eða skattrannsóknarstjóra vegna Samherjamálsins. Ég frábið mér allan málflutning um að ég sé að hlutast til um einstakar rannsóknir. Ég sé bara lykileftirlitsaðila sem ná ekki einu sinni að sinna málabunkanum í dag út af Panama-skjölunum sem ónefndir þingmenn eru nú sjálfir í og ráðherrar. Þeir ná ekki einu sinni að sinna þeim málabunka og hvað þá þegar Samherjamálið bætist við. Það er öllum í hag, meira að segja Samherja, að rannsóknin sé unnin hratt og vel. Það græðir enginn á því að þessi rannsókn dragist í einhver tíu ár eins og sum bankamálin gerðu. Af hverju getum við ekki bara sameinast um að gera þetta almennilega? Af hverju þurfum við að líta til Namibíu til að sjá hvaða aðgerðir er hægt að fara í? Það er ótrúlega áhugavert að sjá það að nú þegar Samherjamálið er orðið tveggja vikna gamalt hefur ríkisstjórnin nánast ekkert gert. Ef maður bakkar aðeins og spyr: Hvað hefur ríkisstjórnin gert í Samherjamálinu? Jú, hún hefur fellt tillögu um að setja aukna fjármuni til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra vegna málsins. Viti menn, þessi ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir munu fella þetta tvisvar því við erum aftur með tillögu um að setja peninga til þessara aðila. Þingmenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins munu ekki fella þessa tillögu einu sinni, þeir munu fella hana tvisvar.

Þau vísa í varasjóðinn eins og ég gat um í andsvari mínu. Í fyrsta lagi: Það er enginn varasjóður fyrir héraðssaksóknara. Það uppgötvaðist í morgun, held ég. Og númer tvö: Það er ekki leyfilegt að nota hinn almenna varasjóð í þessum tilgangi. Hinn almenni varasjóðurinn á að fara í eitthvað ófyrirséð. Er Samherjarannsóknin ófyrirséð á næsta ári? Í hvaða heimi er það? Heldur fólk virkilega að rannsókn Samherjamálsins ljúki á þessu ári? Það er mánuður eftir af árinu, að sjálfsögðu ekki. Númer þrjú: Það er sagt í lögum að ekki eigi að nota almenna varasjóðinn ef hægt er að bæta í með öðrum hætti. Hvað erum við að gera í dag? Við erum með fjárlagafrumvarpið, við getum bætt í við þessa aðila í dag. Það er svo lítið mál og yrði þverpólitísk samstaða um það og allir myndu stækka við það og það yrði málinu til hagsbóta.

Hér voru menn að stæra sig af því að eftirlitsaðilarnir væru stórir og sterkir. Þessir eftirlitsaðilar eru ekki stórir og sterkir. Héraðssaksóknari, skattrannsóknarstjóri og aðrir eftirlitsaðilar ná ekki að sinna þeim málum sem þeir hafa í dag. Þetta er gömul og ný saga. Það er ekki hægt að segja að við þurfum ekkert að bæta í þó að eitthvert mál bætist við. Eitthvert mál? Samherjamálið verður risavaxið mál sem teygir anga sína yfir mörg lönd. Alþjóðastofnanir munu fylgjast með þessu. Önnur ríki munu fylgjast með þessu. Orðspor Íslands er undir. Í alvörunni. Af hverju getum við ekki gert þetta almennilega? Þetta er öllum í hag, líka þeim sem eru ásakaðir um eitthvað brotlegt. Það er ekki verið að reyna að klekkja á einum eða neinum, við erum bara að reyna að tryggja að eftirlitsstofnanir sem nú þegar ná ekki að sinna sínum málaflokkum fái þá fjármuni sem við höfum úr að spila til að mæta þessari þörf. Nei, það á að nota varasjóði ráðherrans, setja þetta í hendur á formanni Sjálfstæðisflokksins af öllum mönnum því hann ákveður, hann ræður útdeilingu varasjóðsins ef hann telur það vera í lagi. Ég tel að sú nýting á varasjóði væri algjörlega á gráu svæði, bæði almenna varasjóðsins og varasjóði málaflokksins, því þetta eru ekki óvænt útgjöld. En segjum að hann ætli að nýta sér þá leið. Þá er það hans ákvörðun um að skammta pening í þessa rannsókn. Er það virkilega það skref sem við viljum stíga? Auk þess hefur hann engan varasjóð fyrir héraðssaksóknara. Hann hefur það ekki. Sá varasjóður er ekki til. Þá þarf hann að grípa í almenna varasjóðinn sem er augljóslega ekki í lagi að nota.

Herra forseti. Mig langar að nefna nokkur önnur atriði sem skipta máli. Við í Samfylkingunni, Flokki fólksins og Pírötum höfum sameinast um eina stóra breytingartillögu. Hún þarfnast svo sannarlega talsverðrar athygli því að þetta er breytingartillaga sem nær til aldraðra og öryrkja. Ég vil vekja sérstaka athygli á henni. Hugmyndafræðin hér er að enginn verði skilinn eftir undir lágmarkslaunum. Við erum tíunda ríkasta land í heimi. Hvernig stendur á því að við þurfum alltaf að vera að rífast um það hversu mikið öryrkjar og aldraðir eiga að fá? Af hverju þarf örorka á Íslandi í allt of mörgum tilvikum að þýða fátækt? Af hverju þarf það að eldast í okkar ágæta landi að þýða óvissu og fátækt í allt of mörgum tilvikum? Það er svo merkilegt að við í þessum sal ákveðum í raun og veru laun þessara tveggja hópa, 20.000 öryrkja og 40.000 eldri borgara. Þess vegna er það hápólitískt hvernig við skömmtum til þessara hópa og það er ótrúlegt að við getum ekki skammtað þeim, ef þannig má orða það, eða tryggt þeim a.m.k. þau lífskjör sem samið var um í svokölluðum lífskjarasamningum. En þetta eru þeir hópar sem eru enn þá skildir eftir. Það er svo sannarlega hægt að gera betur. Ég veit mætavel að hér er ekki hægt að gera allt fyrir alla en byrjum a.m.k. á öryrkjum og eldri borgurum. Útgerðarmenn eiga að vera aðeins lengra frá en við byrjum alltaf á þeim.

Hér tala verkin svo sannarlega því að veiðileyfagjöld hafa lækkað um helming síðan þessi ríkisstjórn tók við. Staðreynd. Þau hafa lækkað um helming. Eitt það fyrsta sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur gerði var að breyta lögunum þannig að veiðileyfagjöld myndu lækka. Pólitísk ákvörðun. Lög eru mannanna verk og það er ótrúlegt að ég man ekki eftir því kosningaloforði 2017 að hér stæði til að lækka veiðileyfagjöld um helming en það hefur gerst. Nú eru veiðileyfagjöldin orðin það lág að þau ná ekki að dekka þann kostnað sem stjórnvöld verða fyrir við að sinna greininni, í stjórnun og eftirliti og öðru slíku. Sú tala sem ég fæ frá sjávarútvegsráðherra sjálfum er hærri. Hinn opinberi kostnaður sem skattgreiðendur verða fyrir vegna greinarinnar er hærri en fyrirhugað veiðileyfagjald. Nú er veiðileyfagjaldið orðið það lágt að það er lægra en tóbaksgjaldið og laxveiðimenn munu greiða meira fyrir sín veiðileyfi en stórútgerðarmenn á næsta ári. Stundum átta ég mig ekki á í hvaða heimi sumir stjórnmálamenn starfa vegna þess að samkvæmt lögum er það þjóðin sem á þessa auðlind.

Ég undirstrika að ég vil svo sannarlega að íslenskum sjávarútvegi vegni vel og ég gleðst þegar honum gengur vel. Það skiptir okkur miklu máli. En við megum ekki gleyma því að sjávarútvegsfyrirtækin hagnast á nýtingu sameiginlegrar auðlindar sem samkvæmt lögum er í eigu þjóðarinnar og þjóðin er hlunnfarin þegar kemur að veiðileyfagjaldinu. Það er svo augljóst. Veiðileyfagjald er ekki eins og hver annar skattur, við skulum ekki blanda þessu saman. Veiðileyfagjaldið er aðgöngumiði að einum bestu fiskimiðum jarðar. Það er staðreynd. Ég er sannfærður um að sjávarútvegurinn geti greitt meira í hina sameiginlegu sjóði í gegnum veiðileyfagjöld en hann gerir núna. Arðgreiðslurnar frá 2010 hafa verið um 100 milljarðar kr. í sjávarútvegi, arðgreiðslur sem fara bara í vasa einstakra útgerðarmanna. Fyrir tveimur árum gekk einn útgerðarmaður út með 22.000 milljónir í vasanum, munið þið eftir því? Með 22.000 milljónir gekk einn maður út úr einu útgerðarfyrirtæki þegar hann seldi. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að segja að þetta sé grein sem hafi ekki burði til að greiða meira. Hagur sjávarútvegsins frá 2010, á einum áratug, hefur batnað um 450 milljarða og árið 2018, ég er með tölur um það, veiðileyfagjaldið er miðað við það, var bara aldeilis ágætisár, það var ekkert slor það ár. Tölur frá útgerðinni sjálfri staðfesta það. Þetta er ótrúlegt, herra forseti.

Það er alveg borin von að það gerist eitthvað í þessum efnum hjá ríkisstjórninni því það er svo augljóst hvaða hagsmunir ráða hér alltaf. Mér fannst það svo táknrænt, þó að það sé ekkert heimsins stærsta mál, þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi fyrir tveimur vikum um að afnema bæri stimpilgjöld þegar keypt eru stór skip. Þetta segir sína sögu. Er það forgangsatriði að afnema stimpilgjöld hjá þeim sem eru að kaupa stór skip? Voru Vinstri græn og Framsókn kosin til að setja þetta í forgang á meðan almenningur þarf að greiða sín stimpilgjöld? Af hverju má ekki nefna t.d. hækkun fjármagnstekjuskatts sem tiltölulega fáir greiða út af frítekjumarkinu? Af hverju þurfum við að hafa lægsta fjármagnstekjuskatt af öllum Norðurlöndunum? Af hverju má ekki skoða og ræða auðlegðarskatt, stóreignaskatt, á sama tíma og 1% ríkustu landsmanna sem öll kjósa Sjálfstæðisflokkinn á meiri hreinar eignir en 80%? 1% á meira en 80% og það er ekki tilviljun að öll þau sem tilheyra ríkasta prósenti Íslands kjósi Sjálfstæðisflokkinn því að þau vita að það er sá flokkur sem gætir þeirra hagsmuna. Við eigum að líta á heildina. Við eigum ekki alltaf að fókusera á 1% eða 5% eða 10%, fókuserum á stóra mengið, almannahagsmunina. Þetta mun hver einasti þingmaður segja eftir 18 mánuði þegar þetta blessaða fólk sækist eftir endurkjöri en verkin tala og þau tala skýrt.

Önnur staðreynd: 40% af nýjum auði sem myndast hefur frá 2010 hafa farið til ríkustu 10% Íslendinga. Þannig að eignaójöfnuðurinn er ekki bara mikill á Íslandi, hann er að aukast. 40% fer til ríkustu 10%. Skattkerfi er eitthvað sem við stjórnum hér í þessum sal. Af hverju getum við ekki beitt því með sanngjörnum hætti og stuðlað að meiri jöfnuði? Jöfnuður er ekki bara einhver falleg hugmyndafræði, alla vega ekki frá mínum sjónarhóli séð, jöfnuður er góð hagfræði, jöfnuður er góð pólitík og góð hagfræði. Samfélög þar sem jöfnuður ríkir eru rík samfélög. Þetta er svo rakið í litlu samfélagi eins og Íslandi. Við erum pínulítið land, 360.000 manns. Við erum svo lítil að það fæðast jafn margir í dag í heiminum og búa á Íslandi, hugsið ykkur. Við búum í ríku landi þegar litið er til auðlinda. Af hverju getur skiptingin ekki verið jafnari? Af hverju þurfa 70% öryrkja að lifa á 300.000 kalli eða minna, 70%? Af hverju þurfa 6.000 börn í tíunda ríkasta land í heimi að þola efnahagslegan skort?

Þetta þarf ekki að vera svona. Það sem við ákveðum í þessum sal eru mannanna verk. Við ákváðum skattapólitíkina, við ákváðum það hvernig við útdeilum okkar sameiginlegu gæðum. Um það snýst pólitík, hvers konar kerfi við búum við. Við erum hér með ofurríkt fólk, alveg ofurríkt á evrópskan mælikvarða, sem getur svo sannarlega lagt meira af mörkum. Ég er ekki að tala um að allir verði jafnir. Auðvitað verður fólk alltaf mismunandi þegar kemur að efnahag. Fyrr má nú vera. En við getum svo sannarlega gengið lengra í að auka hér jöfnuð. Þegar litið er til Norðurlandanna erum við sú þjóð sem er langneðst á lista Oxfam, og Svíar langefstir, þegar kemur að aðgerðum til að auka jöfnuð. Ekki getur það verið arfleifð sem Vinstri grænir geta verið stoltir af.

Ég heyri það iðulega þegar ég fer krítískt yfir þessi blessuðu fjárlög, sérstaklega þegar ég er að gagnrýna Vinstri græna, að stefnt sé að því að bæta stöðuna, að það sé markmið að bæta stöðu öryrkja, aldraðra o.s.frv., en nú er tíminn á þrotum. Þolinmæðin er líka á þrotum. Eins og ég gat um í upphafi þá er bara eitt fjárlagafrumvarp eftir hjá þessari ríkisstjórn. Tími hennar er bara búinn og það er sorglegt hvernig tækifærin voru ekki nýtt strax í upphafi kjörtímabilsins þegar efnahagurinn var sterkari en nú er, þegar hér var mikill hagvöxtur, góðæri. Þetta er ríkisstjórn hinna glötuðu tækifæra. Nú er farið að harðna á dalnum og hagvöxtur er kominn í samdrátt. Þá er auðvitað minna úr að spila, ég veit það, en það er samt nóg í pottinum. Landsframleiðsla Íslands er há. Hér eru sköpuð mikil verðmæti, sem betur fer, en aðgenginu og gæðunum er svo sannarlega misskipt.

Herra forseti. Við getum ekki einu sinni haft ríkisstjórn sem er leidd af sósíalista, að eigin mati, sem treystir sér að lyfta kjörum öryrkja upp í lágmarkslaun. Það virðist vera of stór biti. Enn þá þurfa öryrkjar að vera með lægri laun en lágmarkslaun. Ég sé engan sósíalisma í þessu, enga vinstri stefnu í þessu. Ég sé bara ekki góða pólitík í því að skilja þessa hópa eftir af öllum hópum. Því sem ég er að básúna hér má finna stoð hjá öðrum aðilum en Samfylkingunni. Aðrir flokkar hafa bent á þetta og ekki þarf annað en að líta á umsögn Alþýðusambands Íslands þar sem það gagnrýnir fjárlagafrumvarpið mjög krítískt, að það tryggi hvorki félagslegan né efnahagslegan stöðugleika. Það stendur í umsögninni. BSRB, stærstu samtök opinberra starfsmanna þar sem tveir þriðju eru konur, eru sömuleiðis með mjög harðorða umsögn. Þessir stóru aðilar sem tala fyrir munn ansi margra eru á svipuðum slóðum og ég í dag. Hér sé misskiptingin sannarlega óbærileg og óréttlát.

Að lokum, herra forseti, finnst mér því miður stórir hópar — barnafólk, millitekju- og lágtekjufólk, sjúklingar, skólafólk, aldraðir og öryrkjar og í raun þorri almennings — vera illa sviknir af þessu fjárlagafrumvarpi, sem er stærsta mál ríkisstjórnarinnar, löðrandi í pólitík. Við höfum bent á að tekjumöguleikar hins opinbera eru illa nýttir og það bitnar á nauðsynlegri uppbyggingu innviða í samfélaginu. Þetta frumvarp svarar engan veginn kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í meginstoðum samfélagsins og er órafjarri því sem þessir stjórnarflokkar lofuðu í kosningum og er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.