150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni ræðuna. Mér fannst margt mjög gott í henni og skárra væri það ef hv. þingmaður í stjórnarandstöðu deildi ekki á einhverja þætti í fjárlagafrumvarpinu. Ég deili ekki við hv. þingmann um það að meiri jöfnuður og jöfnuður í þjóðfélagi sé æskilegur og ætla hvorki út í þá umræðu né um fleiri þætti sem snúa að fjárlagafrumvarpinu. Mér fannst við taka umræðu um skólakerfið og fleira ágætlega í 2. umr.

Mig langar aðeins að snúa spurningu minni að fjárlagaferlinu. Hv. þingmaður hefur ágætisþingreynslu og sat á þingi áður en við tókum upp lög um opinber fjármál. Væntanlega er ýmislegt sem breyttist í því verklagi sem rammi laganna er og fjárlagaferlið sjálft. Kannski er mesta breytingin í því að veigamiklar breytingar eiga sér stað í viðamikilli vinnu við fjármálaáætlun sem maður sér síðan varpast yfir í fjárlagafrumvarp að hausti og þá eru frávikin ekkert mjög mikil. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í meginbreytinguna, þá kosti sem hann sér við þetta nýja verklag í fjárlagaferlinu og meginbreytinguna frá því verklagi sem hann þekkti áður en við tókum upp lög um opinber fjármál.