150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að agi skiptir máli en ef við fáum fjárlagafrumvarp frá ríkisstjórn sem er ekki gott fjárlagafrumvarp — við erum að kalla eftir umsögnum frá umsagnaraðilum sem gagnrýna frumvarpið — finnst mér við allt of treg til að mæta þeim áhyggjum. Af hverju bætum við ekki úr ef við fáum fjárlagafrumvarp eins og við fengum þar sem sést að framhaldsskólar fá lækkun? Við eigum ekki að sitja uppi með vont fjárlagafrumvarp. Ég átta mig á að við gerum ekki allt fyrir alla. Af hverju getum við ekki sniðið af annmarkana þegar við vitum að Landspítalinn kemur til okkar og segir að hann stefni í halla ár eftir ár? Af hverju er fjárlaganefnd svona upptekin af smáverkefnum hingað og þangað sem eiga ekki heima hjá okkur? Ég held að við séum öll sammála um það. Af hverju erum við ekki frekar í stóru málunum, í pólitíkinni? Kannski ætti nefndin að koma fyrr að gerð frumvarpsins (Forseti hringir.) þannig að bæði meiri hluti og minni hluti geti sett sitt mark á frumvarpið áður en það kemur inn í salinn. Þið fengjuð a.m.k. meiri frið fyrir okkur ef þið mynduð hleypa okkur að með góðar hugmyndir.