150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt þegar breytingartillögur koma fram, hvað þá upp á slíkar upphæðir sem hér er rætt um, að það liggi þá fyrir hvert sækja eigi það fé sem vantar upp á til að uppfylla þá breytingartillögu. Við erum að tala um 38.000 milljónir, það eru 4% af rekstri ríkisins á einu ári. Þetta eru gríðarlega háar tölur í öllu sögulegu samhengi. Myndi þetta passa inn í óvissusvigrúmið sem við lögðum til í fjármálaáætlun og í stærra samhengi hlutanna?

Ég held að við séum bara ekki í raunveruleikanum þegar menn koma fram með svona hugmyndir. Menn verða þá að vera með tillögurnar fullfjármagnaðar og vita hvernig standa eigi að hlutunum. Hér á ekki að vera að rugla fólk í ríminu hvað varðar þessar upphæðir. Frá sirka 2013–2014, frá því að við fórum að auka mjög útgjöld ríkisins, og eftir að við náðum bata, hafa 65–70% af öllum útgjöldum ríkisins, allri aukningunni, einmitt farið í þessi tvö málefnasvið sem við erum að ræða — 65–70% af öllum útgjöldum síðustu ára.