150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef heyrt þetta ansi oft, hversu dugleg þessi ríkisstjórn sé við að leggja fram fé til öryrkja og eldri borgara. Eins og ég hef sagt þarf ekki annað en að lesa umsagnir Félags eldri borgara eða Öryrkjabandalagsins til að sjá að það er ekki þeirra tilfinning. Þeim finnst ekki nóg vera gert, langt í frá. Í umsögn Öryrkjabandalagsins stendur orðrétt, að mig minnir, að allir flokkar í almannatryggingum séu fjársveltir, allir. Það var nokkurn veginn svona. Ég sé ekki að öryrkjar ættu að vera blússandi ánægðir með þessa ríkisstjórn. Ég veit að hv. þingmaður finnur ekki fyrir ánægju öryrkja með það hversu dugleg ríkisstjórnin hafi verð við að leggja fram fé til öryrkja, ekki á meðan 70% öryrkja eru undir 300.000 kr. Tekjuleiðirnar eru fyrir hendi, hvort sem það eru auknar arðgreiðslur úr Landsvirkjun eða öðrum ríkisfyrirtækjum. Er virkilega ástæða til að setja það í forgang að lækka bankaskatt um 8 milljarða? (Forseti hringir.) Er það virkilega í forgangi að lækka erfðafjárskatt eða afnema stimpilgjöld vegna stórra skipa? (Forseti hringir.) Tekjuleiðirnar eru svo sannarlega fyrir hendi en það er pólitíkin sem ákvarðar hvort þær eru valdar eða ekki.