150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom eðlilega víða við í ræðu sinni en í stuttu andsvari þarf að velja úr. Af því að hv. þingmaður talaði um að fókusera á stóru myndina langar mig einmitt að gera það og kannski að byrja bara almennt á allra stærstu myndinni sem er það efnahagsástand sem við erum í núna. Það er samdráttur í hagkerfinu en hér er engu að síður farin sú leið með fjárlögum að leyfa hagsveiflunni að virka þannig að við förum með fjárlög ríkissjóðs í halla tímabundið og innan þeirra marka sem hafa verið sett í fjármálastefnu. Þetta er risastórt mál sem skiptir máli því að það hefði auðvitað verið hægt að taka þá hagstjórnarlegu ákvörðun að fara ekki í halla og jafnvel í frekari niðurskurð. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns á þessu og hvort hann sé sammála mér um að þetta sé rétt aðgerð hvað sem mönnum kann að finnast um útgjöld í einstaka málaflokka.

Hins vegar langar mig að spyrja í þessu fyrra andsvari hv. þingmann um skattkerfið sem hann hefur talað um. Nú er verið að fjölga skattþrepunum í þrjú í samræmi við það sem var ákveðið í lífskjarasamningunum og akkúrat verið að fara í skattkerfisbreytingar sem gagnast best þeim sem hafa lægstu tekjurnar. Er sú stóra mynd ekki hv. þingmanni að skapi?