150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég styð fjölgun skattþrepa og Samfylkingin hefur gert það þannig að það er fagnaðarefni. Við skulum samt rifja upp að frumkvæði hvers það var gert. Það var ekki að frumkvæði þessarar ríkisstjórnar, um það var samið af aðilum vinnumarkaðarins. Menn skulu gæta sín þegar þeir fara að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Það framfaraskref var ákveðið úti í bæ en ekki í þessum sal. Auðvitað fagna ég því samt og mér er alveg sama hvaðan gott kemur, kannski ólíkt mörgum í þessum sal sem geta ekki hugsað sér fyrir sitt litla líf að samþykkja eitthvað frá stjórnarandstöðunni. Mér er alveg sama um það. Okkar tími í þessum sal er takmarkaður og við höfum bara ekki efni á því að vera í svoleiðis sandkassaleik.

Mig langar sömuleiðis að svara hinu. Mér finnst hv. þingmaður vera svolítið fastur í hægri hugmyndafræðinni, þegar hv. þingmaður nálgast aðgerðir til að mæta samdrættinum, að eina leiðin sé að skera niður. (SÞÁ: Nei, það voru ekki mín orð.)Ókei, þá misskildi ég. Ég vildi nefnilega botna þá setningu. Ég veit að hv. þingmaður er ekki hægri maður, en ég vildi bara draga fram aðra leið í að ná fram aðhaldi og hún er sú að afla tekna. Það er ekki eina leiðin að skera niður, við getum líka aflað tekna. Við getum hækkað ákveðna skatta á þá sem hafa efni á því. Það eru hin glötuðu tækifæri sem ég hef verið að æpa mig hásan yfir síðan ég var aftur kosinn hingað inn. Það eru hin breiðu bök sem við eigum að reyna að finna, og við getum gert það með mjög skilvirkum hætti, til að fjármagna þau loforð sem við vorum kosin til að fjármagna.

Þess vegna hef ég leyft mér að segja að þessi ríkisstjórn sé ríkisstjórn hinna glötuðu tækifæra. Hér hafa tækifæri til að afla tekna verið vannýtt og hv. þingmaður hefði frekar átt að styðja hækkun veiðileyfagjalda, ekki lækkun þeirra. Hv. þingmaður ætti frekar að styðja frekari hækkun á fjármagnstekjuskatti. Hv. þingmaður á ekki að berjast fyrir lækkun bankaskatts af öllum sköttum eins og staðan er í dag en hv. þingmaður gerir það með þeim verkum sínum að styðja þetta frumvarp.