150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Veiðileyfagjöldin voru rúmir 11 milljarðar þegar við tókum við. Þau stefna í 5 milljarða. Það er lækkun, m.a. vegna þeirra lagabreytinga sem þið gerðuð þegar þið tókuð við völdum. Á það var bent, ASÍ og fleiri sögðu að lagabreytingin 2018 myndi orsaka lækkun veiðileyfagjalda. Það að laga gallað kerfi með öðrum galla er ekkert sérstaklega góð pólitík. Veiðileyfagjöld hafa sjaldan verið eins lág og einmitt núna og afkoman 2018 er ekki eins slæm og þið segið.

Númer tvö: Hér er ekki verið að skera niður, segir hv. þingmaður. Hvað kallar hv. þingmaður þegar framhaldsskólar fá minna á næsta ári en núna? Hvað kallast það þegar fjárframlög lækka til hjálpartækja, til endurhæfingarþjónustu, til verndaðra vinnustaða, til skattrannsóknarstjóra, til héraðssaksóknara, til Persónuverndar, til almennrar löggæslu, til kvikmyndagerðar, til lýðheilsusjóðs, til Innviðasjóðs? Þetta eru allt þættir sem ég taldi sérstaklega upp áðan sem sýnir að það er víst verið að skera niður. Það er aðhaldskrafa á skóla, sjúkrahús og öldrunarstofnanir. Það er ekki rétt að segja að hér sé bætt í alla málaflokka. (Forseti hringir.) Þvert á móti er einmitt verið að skera niður víða og það er ekki góð hagfræði að mínu mati, hvað þá góð pólitík.