150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir langa ræðu. Ég veit eiginlega ekki alveg hvar skal byrja á að spyrja hv. þingmann. En í grunninn fannst mér ég lesa út úr ræðu hans að honum fyndist allt ómögulegt og ömurlegt og hér gengi ekkert upp, sem er náttúrlega í hróplegu ósamræmi við allar tölur og allt sem blasir við okkur. Hv. þingmaður kom inn á það snemma í ræðu sinni og vísað í samgöngumálin og ef ég skildi hv. þingmann rétt var hann að reyna að vísa í einhverja ferla sem hefðu virkað vel. Vegna þess að ég þekki vel vinnuna á bak við samgöngusáttmálann og þá vinnu sem á sér stað hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þá held ég að sé mikilvægt að taka fram að þar erum við með mjög afmarkað verkefni, ef svo má segja, mun afmarkaðra en fjárlög ríkisins. Það var engu að síður niðurstaða sérfræðinganna, ef við erum svolítið, afsakið, virðulegur forseti, teknókratísk, að það væri hagkvæmast að gera ekkert annað en að efla almenningssamgöngur með borgarlínu. Niðurstaða pólitíkurinnar aftur á móti, þegar hún fór yfir málið og horfði á alls konar þætti, var að fara blandaða leið eins og lagt er til núna. Þess vegna velti ég upp þeirri spurningu til hv. þingmanns: Hvernig vill hann sjá hlutina betur gerða í fjárlögum? Því miður erum við ekki með eitthvert excel-forrit, eitthvert skjal þar sem við getum bara tekið inn upplýsingar og vitað nákvæmlega hvaða áhrif það hefur. Það er alltaf einhver pólitík sem hefur áhrif, einhver pólitísk sýn.

Svo verð ég að ítreka að það segir okkur allt hvernig myndin lítur út, að sú pólitíska sýn sem hefur verið við stjórnvölinn á síðustu árum virðist hafa fært okkur þangað sem við erum í dag.