Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Langa ræðu, ég nýtti ekki einu sinni allan ræðutímann. Samgöngusáttmálinn — mér fannst innihaldið mjög gott en sáttmálinn mjög lélegur. Það var alger óþarfi að troða einhverju þar inn um veggjöld o.s.frv., alger óþarfi. Það var mjög ógagnsætt ferli þar sem bara borgarstjóri og einhverjir fengu aðgang í gegnum Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, mjög slæm lýðræðisleg vinna sem þar fór fram, þó að við eigum eftir eftirvinnsluna úr því. Það var dálítil kúgunarpólitík í því að koma sáttmálanum á sinn stað, sem ég er ekki alveg sáttur við.

Samgöngusáttmálinn fjallaði vissulega um afmarkað verkefni og það hafa einmitt verið gerðar sviðsmyndagreiningar um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru settar upp leiðir A, B, C og D eða eitthvað því um líkt, þar sem var borið saman að byggja bara upp samgöngumannvirki fyrir einkabílinn o.s.frv., eða að byggja bara upp fyrir almenningssamgöngur og svo blönduð leið með tveimur mismunandi útfærslum o.s.frv. Niðurstaðan þar var að blandaða leiðin væri best. Hún var líka dýrust, en hún minnkaði alla vega umferðartafir eða jók umferðartafir minnst, það má orða það þannig. Þrátt fyrir allar þessar framkvæmdir munu umferðartafir samt aukast miðað við þær forsendur sem voru gefnar þar. Sú sviðsmyndagreining sem þar fór fram og þeir valmöguleikar sem liggja fyrir benda augljóslega á þá leið sem var valin og þau sérstöku verkefni sem voru valin inn í samgöngusáttmálann. Leiðin er ekki hárnákvæmlega sú sama en maður skilur vel að hún hafi verið valin út frá sviðsmyndagreiningum og kostnaðar- og ábatamati sem þar lá á bak við. Ég vil meira svoleiðis. Þegar stjórnvöld setja sér stefnu um að komast eitthvað, þá liggi fyrir að við (Forseti hringir.) getum gert það á mismunandi vegu eins og lög um opinber fjármál segja til um, þar er sviðsmyndagreiningin, þar er kostnaðar- og ábatagreiningin, og þar getum við valið. Vissulega er smápólitík í forgangsröðun hér og þar en það er á þessum nótum.