Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni í því að það er mikilvægt að nota sviðsmyndagreiningar og við eigum að gera það þegar við getum. En ég held að hv. þingmaður einfaldi málið um of ef hann telur að það sé hægt að setja þetta allt saman í einhvers konar excel-skjal, greina út úr því einhverjar sviðsmyndir og velja eina. Við erum auðvitað að tala um sambland af mjög mörgum þáttum og það er eðlilegt og það er væntanlega þess vegna sem við erum hér og einhverjir munu þurfa að skipa þennan sal til endalausrar framtíðar til að fara í þetta út frá pólitískum forsendum.

Hv. þingmanni er tamt að gagnrýna framkvæmd okkar á lögum um opinber fjármál. Nú ætla ég ekki að segja að það megi ekki gagnrýna það. Það má stöðugt rýna til gagns og gera enn betur. Ég er algjörlega á því. En þegar við horfum á gamla tímann sem við höfðum hérna fyrir lögin um opinber fjármál, og ég nefni það sem dæmi þegar ég kom inn sem varaþingmaður á árunum 2004, 2005 eða um það leyti, einmitt á þessum árstíma, jafnvel seinna þegar 2. og 3. umr. fjárlaga fór fram, þá voru niðurstöðurnar: 100.000 kr. til Hvalasafnsins á Húsavík — ég er auðvitað að taka einhver dæmi — eða jafnvel til einhverra kóra eða álíka. Þetta voru pínulitlar upphæðir til mjög afmarkaðra verkefna. Þá er ég svo ánægð með þann stað sem við erum komin á í dag með lögunum og með fjármálaáætlun þar sem er skilgreint verkefnasvið undir hverju ráðuneyti og undir hverjum lykli. Þar erum við með áætlanir og þar erum við með markmið og það er tæki okkar á þinginu til að hafa eftirlit með því að ráðherra sé að nota það fjármagn sem þeir fá í þau verkefni sem tilgreind eru í fjármálaáætlun. Þar erum við líka með markmið sem á að nást.

Ég veit að þessi tafla er ekki fullkomin og sum ráðuneyti þurfa að standa sig betur og það er mismunandi erfitt eða auðvelt að vinna með þetta út frá málaflokkum. En ég held að það gleymist oft í umræðunni sem við erum að gagnrýna hvað við erum þó komin langt í faglegheitunum þegar kemur að áætlunum því við erum ljósár frá því sem var gert hérna áður en við höfðum þessi lög.