150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var löng þó að hann hafi ekki nýtt tímann. Það er mjög gaman að heyra ræðu, sem ég er að vísu búinn að heyra nokkrum sinnum hér, aftur og aftur, um form og tæknileg atriði, og auðvitað um lögleysu og lögbrot allra annarra. Ég þekki þær orðið. Ég er bara með eina spurningu. Fjárlög og þær tillögur sem menn koma með endurspegla pólitíska sýn og sjónarmið þingmanna. Hefur hv. þingmaður og flokkur hans yfir höfuð einhverja pólitíska sýn? Er engin skoðun á efnisatriðum þessa frumvarps að ráði? Vilja Píratar hækka skatta, lækka skatta, breyta skattkerfinu, deila peningum öðruvísi út eða snýst þetta bara um eitthvert form, einhver tæknileg atriði sem þingmaðurinn talar um og auðvitað enginn skilur? Þeir sem skilja eru náttúrlega ekki sammála því. En spurningin er: Hafa Píratar einhverja skoðun, einhverja pólitíska sýn, aðra en þá að aðrir séu spilltir og geti ekki farið að lögum?