150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var gott að það kom þó einhver pólitísk sýn, það er skattalækkun. Við erum að fjalla hér um fjárlög. Ég get alveg tekið undir með mönnum um gagnsæi, mannréttindi og allt það, þar er enginn ágreiningur og það er eiginlega ekki til umræðu núna. Ég velti því mikið fyrir mér að allan þann tíma sem ég hef setið á þingi með Pírötum hefur verið afskaplega erfitt að átta sig á pólitískri hugmyndafræði þingmanna flokksins og kannski flokksmanna almennt. Kannski er hún mjög misjöfn. Ég velti fyrir mér: Hvert er hið pólitíska erindi flokksins og þingmanna hans? Eru þeir bara hér til að benda á allt siðleysi og spillinguna eða eru þeir hér til þess að vera í stjórnmálum? Gott og vel, lækka skatta, ég er mjög ánægður með það og ég tek undir það (Gripið fram í.)og það er mjög góð pólitík. En þegar maður hlustar samt á þingmenn og flokksmenn í gegnum einhverja miðla upplifir maður ekki þá pólitík að lækka skatta. Ég upplifi flokkinn sem gamaldags vinstri flokk að meginstefnu til sem notar venjulega sýndarmennsku til að koma sér á framfæri. Nú er sýndarmennskan um spillingu, lögbrot o.s.frv. Þetta er allt þekkt í lýðskrumsfræðunum sem eiga sér langa sögu. Ég kalla eftir því að þingmenn Pírata taki alvöruumræðu, hafi einhverja skoðun á þeim stjórnmálum sem hér eru uppi sem varðar þetta frumvarp sem er til umræðu.