Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að við séum alveg sammála um hagstjórnarhlutverkið en okkur greinir klárlega á um aðkomu að stefnunni. Við getum þó verið sammála um eitt, að það sé mikilvægt að byggja upp innviði, ekki síst á þessum tímum, að reyna að setja í arðbærar innviðafjárfestingar við þessar aðstæður. Mig langaði að koma í seinna andsvari að ríkisrekstrinum, hagræði og mælikvörðum sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Ég veit að við deilum þeirri skoðun að það sé mikilvægt að byggja inn í fjárlagavinnu, ríkisfjármálaáætlun og fjárlögin mælikvarða til að mæla skilvirkni og ábata af fjárfestingum og til að mæla gæði þjónustunnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það um hvers konar kennitölur og lykiltölur við erum að ræða. Erum við að tala um hefðbundna hagvísa og svo hagsældarmælikvarða um velsæld, menntun, heilsu, þess háttar mælikvarða sem hv. þingmaður vísar til þegar hann er að tala um aukna mælikvarða? Ég held að það sé einmitt sú umræða sem við þurfum að taka hér, ekki bara í fjárlaganefnd heldur í þinginu. Hún snýr að verklagi sem er í kringum opinber fjármál og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Ég held að þetta sé svolítið verkefnið fram á við. Við munum svo alltaf deila í pólitík um stefnu og leiðir þegar kemur að útfærslu ríkisfjármála og um gjöld og tekjur. Þetta er spurningin sem snýr að mælikvörðum á þessari vinnu.