150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að við breikkum sýnina þegar kemur að mælikvörðum á velsæld samfélagsins, ekki bara einblína á verga landsframleiðslu eða dæmigerðar efnahagslegar stærðir heldur einmitt velsældarmælikvarða. Ég fagna því framtaki ríkisstjórnarinnar á því sviði að vera að útvíkka þá mælikvarða. Við þurfum að fylgjast með heilbrigði þjóðarinnar, hamingju þjóðarinnar, jöfnuði í tekju- og eignasamsetningu og hvernig fólki almennt reiðir af í daglegu lífi. Þar er gríðarlega mikilvægt að fylgjast vel með.

Það sem ég sakna hins vegar mjög úr ríkisfjármálunum sjálfum eru auðvitað hvers kyns skilvirknimælikvarðar. Þar getum við komið inn á hvernig okkur gangi t.d. að sinna þeirri þjónustu sem kallað er eftir, hvort sem það eru biðlistar í heilbrigðiskerfinu eða menntakröfur samfélagsins á hverjum tíma. Náum við að veita rétt framboð af menntun á hverjum tíma miðað við eftirspurnina? Við höfum talað fjálglega árum saman um mikilvægi iðn- og tæknimenntunar en þurfum svo jafnvel að vísa fólki frá af því að við getum ekki veitt því skólavist þegar ásóknin svarar loksins kallinu. Það er mjög alvarlegt. En við höfum heldur enga eiginlega mælikvarða um skilvirkni í hinum opinbera rekstri.

Ég get nefnt dæmi. Sé horft á rekstur Landspítalans á undanförnum árum er framleiðni spítalans samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum úr fyrirtækjarekstri að hrynja. Starfsfólki fjölgar verulega og kostnaður eykst sömuleiðis en út frá þeim gögnum sem spítalinn birtir sjálfur virðist sem heimsóknum fjölgi hvorki svo mikið né verkum sem unnin eru á spítölunum. Á slíkan einfaldan mælikvarða er framleiðni spítalans einfaldlega að hrynja. Þetta eru mælikvarðar sem við þurfum að fylgjast með (Forseti hringir.) almennt í opinberum rekstri. Er verið að sinna rekstrinum nægjanlega vel? Er nægjanlega vel farið með það opinbera fé sem lagt er til þessara mikilvægu mála?