150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. [Kliður í þingsal.] Fyrst af öllu vil ég þakka fyrir þessa umræðu, ekki þá sem fer fram hérna í hliðarsal heldur þá umræðu sem hefur farið fram í þingsal í dag og ég hef fylgst með af kostgæfni. Um leið og ég þakka fyrir umræðuna rennur upp fyrir mér hversu tilgangslaus hún var. Líkt og réttilega var sagt í ræðu síðasta hv. ræðumanns jaðrar það við móðgun að kalla fólk fyrir fjárlaganefnd til að láta það segja eitthvað sem ekkert á að gera með. Ég vil reyndar taka þetta aðeins lengra vegna þess að það vill þannig til að ég hef reynslu af því að vinna að fjárlagagerð í stofnun, í ráðuneyti og síðan hér, þó að ég hafi ekki setið í hv. fjárlaganefnd. Það er gríðarlega mikil vinna lögð í undirbúning fjárlagatillagna á öllum þessum stöðum og það er ekkert gert með þessa vinnu, ekki nokkur skapaður hlutur. Og það er reyndar þannig líka að við höfum metnaðarlitla ríkisstjórn eins og nú situr, sem er sameinuð um það eitt að sitja og leitar í sífellu lægstu þröskulda til að fara yfir og leitar í sífellu málamiðlana sem eru nógu loðnar til að allir fái sitt, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn gangi í björg öfgavinstrisins í heilbrigðismálum og að öfgavinstrið standi fyrir hernaðaruppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, svo ég taki bara tvö mjög einföld dæmi en mjög lýsandi.

Ég er búinn að eiga orðræður við hæstv. fjármálaráðherra núna að undanförnu sem tengjast fjárlögunum. Mér þykir leitt að fjármálaráðherra er ekki hérna, ég veit að hann er við skyldustörf erlendis, en ég vona að eyru hans og augu sem eru vonandi hér á svæðinu færi honum þessi skilaboð sem ég ætlaði að segja við hann sjálfan. Við ræddum um daginn, ég og hæstv. fjármálaráðherra, um innheimtu ríkissjóðs og það var í tilefni af því að samkvæmt svari frá fjármálaráðuneytinu við fyrirspurn minni eru u.þ.b. 80 milljarðar kr. á sveimi í hagkerfinu sem ekki eru greiddir skattar af. Ég mæltist til þess í umræðum við hæstv. ráðherra um daginn að það yrði settur kraftur í þetta mál. Miðflokkurinn lagði reyndar fram ákveðnar tillögur í þessu efni í fyrra sem voru að sjálfsögðu felldar. [Kliður í þingsal.] Hæstv. fjármálaráðherra talaði um það að það væri líka peningur í því sem hann kallaði litlu aðilana eða sílin. Hann gumaði dálítið af Airbnb. — Enn er skraf hérna í hliðarherbergi. Hann gumaði af árangri af því að koma þeirri starfsemi undir skattskyldu. Auðvitað varð ég rosalega kátur að heyra hæstv. ráðherra segja þetta vegna þess að ég er búinn að berjast fyrir því í sex eða sjö ár að þetta væri gert og nú var eins og blessuð skepnan skildi vegna þess að hæstv. ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sýndi dug í fyrra og setti af stað sérstakan starfshóp til að reyna að uppræta mestu skattsvikin í þessari starfsemi. Það hefur tekist bærilega og það hefur komið skikki á þessa starfsemi að hluta, reyndar er ekki nema þriðjungur enn þá komin undir skattskil. En síðan áttum við smáumræður í gær, ég og hæstv. fjármálaráðherra, þar sem við vorum að fara yfir m.a. tillögur sem Miðflokkurinn hefur lagt til, bæði við 2. umr. sem var um daginn og nú aftur við 3. umr., og hæstv. fjármálaráðherra þótti skítur til koma. Hér væri verið að tala um, eins og hann sagði, 0,2% sem við legðum til í að berjast við báknið sem hann er búinn að vinna svo ötullega að allan sinn fjármálaráðherratíma og sérstaklega núna síðustu tvö og hálft ár að belgja út sem mest má vera. Svo þegar koma fram hógværar tillögur um að reyna að vinda ofan af vitleysunni gerði hann frekar lítið úr þessu og var með hæðni.

Málið er hins vegar að í tillögum Miðflokksins er gert ráð fyrir hagræðingarkröfu á ráðuneyti upp á 1 milljarð kr. Svo vill til að stjórnunarlegur rekstur ráðuneytanna í heild er í kringum 30 milljarðar þannig að þetta er ekki 0,1%, nema við hæstv. fjármálaráðherra höfum lært reikning hvor í sínum skólanum og á ólíkum forsendum. Það vildi reyndar þannig til að hæstv. fjármálaráðherra var svo pirraður í gær, kannski hefur hann verið með flugviskubit af því að hann var að fara til fundar erlendis, ég veit það ekki, en hann var bara svo pirraður í gær að það var mjög erfitt að eiga við hann orðastað. En það er líka vert að geta þess að það hafa verið hallalaus fjárlög á Íslandi síðan árið 2013 þangað til núna. Hvers vegna? Ég held að það sé m.a. vegna þess að þingið hefur ekki nógu mikla aðkomu. — Ég verð að biðja forseta um að draga úr þessu skvaldri í hliðarsalnum. Ég held að það sé m.a. vegna þess hve fjárlagagerðin er komin það langt héðan frá Alþingi að menn eru seinir í svifum að bregðast við. Ég hef algjöra sannfæringu fyrir því. Ég vildi óska þess að þingið hefði öflugri aðkomu að fjárlagagerðinni í stað þess að eina aðkoman núna er þessi hefðbundna. Að vísu, og ég hef hrósað því áður og ætla að gera það aftur, er umræðan á þessum vetri með allt öðrum brag og miklu dýpri og betri en hún hefur verið í tvö ár. En það breytir ekki því að þetta er mjög hefðbundið.

Eins og áður hefur komið fram leggur Miðflokkurinn til breytingartillögur við 3. umr. sem eru svipaðar og við 2. umr., upp á um 4,5 milljarða kr., fullfjármagnaðar tillögur, allar skynsamlegar. Það mun koma mér mjög á óvart ef ekki verður farin sú hefðbundna leið að meiri hlutinn á Alþingi felli allar tillögur, líka þær skynsamlegu sem Miðflokkurinn hefur lagt fram. Auðvitað vona ég að skynsemin látið á sér kræla í meiri hlutanum en ég er ekki bjartsýnn á það.

Það er t.d. eitt núna sem við settum inn á milli 2. og 3. umr. og það er tillaga um að 200 millj. kr. yrði varið til þess að gera samninga við einkaaðila um átak í að ráðast á biðlista vegna mjaðma- og liðskiptaaðgerða. Fyrir þessar 200 milljónir má væntanlega kaupa um 150–170 aðgerðir, trúi ég, hugsanlega meira ef menn fá magnafslátt, ég veit það ekki. En þetta mun skera þann kúf sem er í biðlistanum eftir þessum aðgerðum vegna þess að það er enn þá óbreytt ástand og það eru í kringum 1.000 manns sem bíða, ef við leggjum saman biðlista eftir bæði mjaðmaaðgerðum og hnéaðgerðum. Þetta hefur ekkert breyst. Öfgavinstrið reynir núna að draga alla heilbrigðisþjónustu inn á Landspítalann sem er þegar yfirkeyrður. Landspítalinn og starfsfólkið þar vinnur kraftaverk á hverjum degi, en það er yfirkeyrt. Það eru sífellt dregin inn ný verkefni, núna síðast krabbameinsskoðanir kvenna; brjóstaskoðanir eiga að fara fram á Landspítalanum. Ég las reyndar í blaði um daginn og ég á eftir að lesa það aftur því að ég trúði því ekki, að konur eigi sjálfar að sjá um að taka leghálssýni, bara heima eða á heilsugæslustöð. Ég bara trúi því ekki fyrr en ég sé það aftur.

Það er verið að færa þessa þjónustu nokkra áratugi aftur í tímann. Við erum síst í betri málum eða með færri tilfelli, frú forseti, á nýgengi krabbameins en hefur verið þannig að þetta er furðuleg ráðstöfun. En þetta lætur Sjálfstæðisflokkurinn yfir sig ganga í ríkisstjórnarsamstarfinu. Þetta er alveg skelfilegt. En þetta er kannski dæmi um það sem ég var að segja áðan, að þetta stjórnarsamstarf laðar það versta fram í þeim flokkum sem eru ráðandi aðilar í ríkisstjórninni, því miður. Þess vegna er ekki von á góðu. Það hefur verið bent á það að við séum illa stödd vegna þess að við séum í niðursveiflu og ríkissjóður og ríkisfjármálaáætlun geri ekki ráð fyrir því og séu ekki á pari við það sem gæti gerst ef niðursveiflan verður erfiðari en menn búast við. Nú er ég ekki í þeim hópi sem trúir því að niðursveiflan sem við erum að horfa á núna verði langvarandi. Mér sýnist ekki að það þurfi að vera vegna þess að ég held að það gæti margt gerst á næsta misseri til að laga það. En ég efa ekki að sérstaklega næstu sex mánuðir, þ.e. fyrstu sex mánuðir næsta árs, a.m.k., verði örugglega nokkuð erfiðir. Einmitt þess vegna lögðum við fram og leggjum fram núna við 3. umr. aftur tillögu um lækkun tryggingagjalds til þess að hjálpa meðalstórum og litlum fyrirtækjum í gegnum þennan samdrátt, efla þau til að ráða fólk vegna þess að þar er drifkrafturinn. Ég vona satt að segja að menn sjái skynsemina í þessu og samþykki þetta. Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Jú, með því að selja holuna hérna út við höfn sem Landsbankinn lét grafa í tómu tilgangsleysi. Landsbanki Íslands hefur ekkert að gera við það að byggja hús, sem er reyndar of stórt fyrir hann, á dýrustu lóð á Íslandi, ekki neitt. Þetta er kannski lýsandi dæmi. Þó að þetta sé ekki hefðbundið ríkisfyrirtæki er þetta kannski hefðbundið dæmi — af því að ég vil ekki segja „týpískt“, frú forseti — um það hvernig báknið fer sínu fram.

Þegar svo er þurfa stjórnmálamenn að stíga fram og stjórna og hafa alvörustefnu en ekki bara taka einhver excel-skjöl ofan úr fjármálaráðuneyti og leggja fram sem fjárlagafrumvarp á Alþingi, eins og meiri hlutinn er að gera núna, gagnrýnislaust og umyrðalaust. Í raun og veru ættu kannski bara fjármálaráðuneytismenn að vera hér til andsvara. Þeir eru jú höfundar að þessu plaggi og aðaláhrifavaldarnir í því. Svo erum við eins og hænur á priki að kvaka um einhver atriði í þessu fjárlagafrumvarpi sem við höfum ekkert með að gera og getum ekki breytt þótt við vildum og getum náttúrlega alls ekki breytt ef við erum í stjórnarandstöðu því að það er alveg sama hvað hefur komið fram og er skynsamlegt og gott, það er allt fellt. Hefðbundið.

Ríkisstjórnin ætlaði að efla þingið — það stendur í stjórnarsáttmálanum á forsíðunni, stjórnarsáttmáli um ríkisstjórn og eflingu Alþingis. Það er nú aldeilis verið að efla Alþingi með þessu. Við fáum að tala út í eitt, aðeins lengur en í fyrra. En það er ekkert gert með það sem við komum fram með, ekki neitt. Þó að það sé gott að geta talað fyrir góðum málum og skýrt þau svo að þjóðin viti að verið sé að leggja fram skynsamlegar tillögur, þá hef ég þá trú á morgun við nafnakall muni flestar þessar tillögur verða felldar, ef ekki allar. Ég hlakka náttúrlega til morgundagsins, frú forseti. Ég vil sjá hvort það blundar einhver skynsemi í stjórnarmeirihlutanum. Þar er margt mætra manna og ég vona að formaður fjárlaganefndar, sem er gagnheill maður og skynsamur, hafi vit fyrir sínu fólki og hvetji það til þess að styðja þær góðu tillögur sem (Forseti hringir.) Miðflokkurinn leggur fram við 3. umr. og hér ítrekað.