Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrir tveimur árum var í fréttaþættinum Kveik á dagskrá RÚV þáttur um fiskveiðiauðlindina, umgengni um hana og eftirlit. Þar kom ýmislegt fram og m.a. var þar viðtal við fiskistofustjóra sem sagði að Fiskistofa gæti ekki vegna fjárskorts sinnt sínu lögbundna hlutverki og lét það fylgja að margoft væri búið að láta ráðuneytið vita um það. Í kjölfarið á þessum þætti samdi ég skýrslubeiðni, og fékk með mér nægilega marga þingmenn til að hún yrði samþykkt, um að kanna eftirlit með vigtun, á sjó o.s.frv. og biðja Ríkisendurskoðun að taka það allt saman út. Það gerði Ríkisendurskoðun ágætlega og skilaði skýrslu í janúar á þessu ári. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa helstu niðurstöðu þessarar skýrslu:

„Á grundvelli þeirra gagna sem Ríkisendurskoðun aflaði við gerð úttektarinnar er ljóst að eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla er takmarkað og efast má um að það skili tilætluðum árangri. Ríkisendurskoðandi leggur til að gerðar verði skýrar kröfur um aðstöðu til vigtunar og eftirlit hafnaryfirvalda. Kanna þarf hvort færa eigi vigtun á hafnarvog undir forræði Fiskistofu og fjölga yfirstöðum eftirlitsmanna hjá vigtunarleyfishöfum.

Eftirlit með brottkasti er veikburða og ómarkvisst. Hvorki liggja fyrir skýr árangursmarkmið né árangursmælingar. Ríkisendurskoðandi mælist til að kannað verði hvort auka megi samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslu við eftirlit með brottkasti. Þá þurfi að auka viðveru eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum og horfa til tækninýjunga við eftirlit.

Ekki verður séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Ráðast þarf í endurskoðun á 13. og 14. gr. laganna hvað snýr að ákvæðum um bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda.

Ríkisendurskoðandi vekur athygli á mikilvægi þess að Fiskistofa hafi nauðsynleg úrræði og aðföng til að sinna eftirliti með skilvirkum og árangursríkum hætti með tilætluðum fælingar- og varnaðaráhrifum. Skilgreina þarf skýr árangursmarkmið um eftirlitshlutverk Fiskistofu og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að þeim verði náð.“

Það er ekki hægt að misskilja þessa niðurstöðu hjá ríkisendurskoðanda. Skýrslan öll var mjög svört og greinilegt að eftirlit með fiskveiðiauðlindinni okkar er afar veikburða og Fiskistofa fjársvelt. En hvað gerir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur? Hún leggur til raunlækkun á framlögum til Fiskistofu milli áranna 2019 og 2020, hækkun upp á 1,7% sem heldur ekki einu sinni í við verðbólgu. Ef við skoðum áfram í fjármálaáætluninni er hreinlega lækkun milli áranna 2020 og 2021. Þetta vekur sannarlega furðu og maður skilur bara ekki hvað er eiginlega þarna á ferðinni. Það á að veikja fiskveiðieftirlitið þó að það sé augljóst mál, það er búið að sýna fram á það með vönduðum skýrslum, að það er í molum og þarfnast aukins fjármagns. Vissulega er stýrihópur að störfum við að fara yfir þau atriði sem nefnd eru í skýrslunni en hann hefur ekki skilað niðurstöðum. Ég sit sjálf í þeim stýrihópi. Hins vegar kemur í sama stað hver niðurstaða þessa stýrihóps verður, niðurstöður Ríkisendurskoðunar eru klárar. Það þarf fleiri starfsmenn, það þarf fleiri hendur á dekk til að sinna eftirliti með fiskveiðiauðlindinni okkar. Þess vegna leggjum við í Samfylkingunni til að þingheimur samþykki aukin fjárframlög til Fiskistofu við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2020. Það er augljóst hagsmunamál, ekki síst í ljósi síðustu frétta sem reyndar komu líka í gegnum fréttaþáttinn Kveik.

Hér hefur einnig verið rætt um hvernig eigi að taka á því stóra máli sem upp er komið með Samherjaskjölunum. Það er augljóst að mjög flókin rannsókn þarf að fara í gang sem mun teygja sig til margra landa. Hún mun teygja sig yfir í bankastarfsemi, í rannsókn á mútum, jafnvel á peningaþvætti, skattsvikum og skattaskjólum. Þarna eru flóknar millifærslur á ferðinni. Það er vitað að þetta verður flókin rannsókn og tryggja þarf embættum okkar fjármagn til að sinna henni. Við í Samfylkingunni leggjum það aftur til af því að meiri hlutinn felldi tillöguna við 2. umr. þótt augljóst sé og dagljóst að embættin þurfa aukið fjármagn. Reyndar hefur Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagt frá því hvað hann þarf mikið. Ég vil fá að vitna í frétt á vef RÚV frá því fyrr í dag, frú forseti. Þar stendur.

„Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, leggur til að starfsmönnum á rannsóknarsviði embættisins verði fjölgað um sex í byrjun næsta árs. Þetta sé þó lágmarksfjölgun en Ólafur leggur til að starfsmönnum verði mögulega fjölgað um tvo til viðbótar á síðari stigum ef „verkefnastaða gefi tilefni til“.

Þetta kemur fram í minnisblaði Ólafs Þórs til dómsmálaráðuneytisins sem fréttastofa fékk afhent. Tilefni minnisblaðsins er umræðan um mál Samherja og áhrif þess á verkefnisstöðu embættisins.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 19. nóvember að huga „sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu“. Tveimur dögum eftir þann fund sendi Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, minnisblað til dómsmálaráðuneytisins. Nokkrum dögum seinna var minnisblaðið komið til fjármálaráðherra sem ræddi tilvist þess á þingfundi í gær.

Samherjamálið er ekki nefnt sérstaklega í minnisblaðinu en Ólafur Þór segir að núverandi starfsmannafjöldi dugi ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem embættið hafi á hendi.

Ólafur segir að áætlaður meðalkostnaður fyrir hvert starf sé um 15 milljónir og heildarkostnaðurinn því um 90 milljónir. Hann segir að mörg stór og þung efnahagsbrotamál séu til rannsóknar eða bíði eftir því að komast í rannsókn. Um 100 mál séu til rannsóknar en að jafnaði séu þau 50 til 70. „Af þeim 100 málum sem bíða rannsóknar eru um 60 skattamál.““

Frú forseti. Embættið er enn að rannsaka Panama-skjölin sem komu fram fyrir þremur árum eða svo.

Í fréttinni segir áfram:

„Ólafur bendir jafnframt á að fjölgun starfsmanna og efling skrifstofu fjármálagreininga lögreglu leiði til fleiri greininga þaðan til rannsóknarsviðs embættisins sem þurfi að rannsaka.

Hart var að sótt að Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, á Alþingi í gær vegna fjármögnunar á embætti héraðssaksóknara í tengslum við Samherjamálið. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sökuðu Bjarna um að brjóta lög um opinber fjármál þar sem hann ætlaði að sækja í varasjóði til að styrkja embættið ef á þyrfti að halda.“

Frú forseti. Ég held að öllum sé ljóst að ef ekki verður samþykkt við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2020 að veita embættunum aukin fjárframlög í fyrirsjáanlegar rannsóknir á árinu 2020 heldur vísað í einhverja varasjóði er bara verið að drepa málum á dreif. Mér finnst leiðinlegt að sú ásýnd sem teiknast upp af dugleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þegar kemur að þessum málum er að það er ekki einu sinni hægt að sjá til þess að héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri hafi nægilegt fjármagn til að rannsaka málin. Það er vísað í varasjóði en ef það á að gerast er það brot á lögum um opinber fjármál og það vita þeir sem sitja í hv. fjárlaganefnd. Það minnsta sem fjárlaganefnd, sem á að veita ráðherrum aðhald, getur gert er að gera þá kröfu að ráðherrann geri áætlun og leggi fram tillögu sem samþykkt verður í fjárlögum. Hitt er fúsk og það er á ábyrgð stjórnarmeirihlutans. Vonandi skiptir stjórnarmeirihlutinn um skoðun og leggur fram tillögu á morgun við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2020 eða samþykkir tillögu Samfylkingarinnar.

Frú forseti. Tíminn líður hratt og núna vil ég nefna stóru tillöguna frá Samfylkingunni, Pírötum og Flokki fólksins sem mætir þeirri kröfu að hér verði enginn undir lágmarkslaunum. Fólkið sem þarf að treysta á lífeyrisgreiðslur hefur ekki valið sér hlutskipti sitt og það erum við, löggjafinn og stjórnvöld, sem eigum að standa vörð um þann hóp. Vinstri græn voru þeirrar skoðunar 2015 að það ætti að vera metnaðarmál stjórnvalda að bæta kjör öryrkja og eldri borgara. Við umræðu um fjáraukann 2015 tók t.d. hæstv. forsætisráðherra, þá í stjórnarandstöðu, undir breytingartillögu minni hluta fjárlaganefndar um hækkanir í samræmi við nýgerða kjarasamninga og sagði, með leyfi forseta:

„… þess vegna tek ég undir með minni hlutanum sem leggur bara þá breytingu til að öryrkjar og eldri borgarar fái kjör sem eru a.m.k. sambærileg við þau kjör sem þeir búa við sem hafa í raun lægstu kjörin í samfélaginu og þær kjarabætur verði afturvirkar eins og gert er ráð fyrir á almennum markaði. Þessir hópar hafa ekki valið sér hlutskipti sitt og það á að vera sómi okkar að búa sæmilega að þeim.“

Frú forseti. Ég tek undir þessi orð sem hæstv. forsætisráðherra sagði úr þessum ræðustóli árið 2015. Við kjarasamningana 2011 ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að öryrkjar og eldri borgarar fengju hliðstæðar kjarabætur og þá var samið um á milli ASÍ og SA, en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mærir lífskjarasamningana en skilur öryrkja og eldri borgara eftir. Vinstri græn hafa skipt um skoðun og eru orðin sammála Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum þegar kemur að kjörum öryrkja og eldri borgara og jafnri stöðu fólks á Íslandi.

Meðal öryrkja og eldri borgara eru of margir sem þurfa að framfleyta sér á 248.000 kr. á mánuði og það er langt undir lágmarkslaunum. Skattbreytingar sem eiga að taka gildi 2020 í tengslum við lífskjarasamningana færa þessum hópi aðeins 1.777 kr. í hækkun á mánuði. Hækkunin sem lífeyrisþegar fá 1. janúar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er 3,5%. Ríkisstjórnin vill að þeir sem treysta einvörðungu á greiðslur frá Tryggingastofnun hækki upp í tæpar 256.000 kr. á mánuði á næsta ári. Til samanburðar eru lífskjarasamningarnir með lægstu launataxtana frá 1. apríl 2019 317.000 kr. á mánuði og frá 1. apríl 2020 341.000 kr. á mánuði og, ef miðað er við launatryggingu, um 335.000 kr. á mánuði. Munurinn á þeim sem eru á lágmarkslaunum og þeim sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar frá 1. apríl á næsta ári verður 80.000 kr. á mánuði. Svona förum við að, tíunda ríkasta þjóð heims, með ríkisstjórn VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Frú forseti. Ég skammast mín satt að segja fyrir þá stefnu ríkisstjórnarinnar að halda þeim sem eru allra fátækastir á Íslandi, fólki sem hefur ekki valið sér þá stöðu, fólki sem treystir á okkur hér til að fá sæmileg kjör, fátækustum af öllum. Bilið breikkar milli þeirra og fólksins sem er á lágmarkslaunum. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ættu að skammast sín, að klappa upp lífskjarasamningana en skilja eftir fátækasta fólkið, fólkið sem við í þessum sal eigum að sjá fyrir almennilegum kjörum. Það er skömm að þessu.