Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Hingað til hefur sú sem hér stendur almennt ekki verið virkur þátttakandi í umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Fyrir því eru tvær einfaldar ástæður. Í fyrsta lagi sé ég að tillögur okkar Pírata, sem og annarra minnihlutaflokka, njóta svo gott sem aldrei stuðnings meiri hluta þingsins og því helst til tilgangslaust að mæta hér með tillögur sem vitað er að enginn áhugi er fyrir að hlusta á, hvað þá samþykkja. Meira að segja þegar meiri hlutanum finnst ákveðin tillaga þörf og góð fellir hann tillöguna og kemur svo fram með eigin tillögu sem hljómar svo gott sem nákvæmlega eins, allt svo minni hlutinn fái ekkert í sinn hlut. Í öðru lagi er það svo að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson er fjárlagaséní okkar Pírata og við, eins og raunar margir þingflokkar, tileinkum okkur verkaskiptingu eftir styrkleika hvers og eins.

Ég má þó til með að koma upp í 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2020 til að vekja máls á fjármögnun mikilvægra stofnana sem vissulega heyra bæði undir áhugasvið mitt sem og verksvið. Það eru hinar ýmsu eftirlitsstofnanir sem við reiðum okkur á til að tryggja að farið sé eftir lögum og reglum og þeim samfélagssáttmála sem við sem hér búum teljum okkur búa við. Ég er að tala um stofnanir sem sjá til þess að allir greiði sinn hlut til samfélagsins í formi skatta, eins og t.d. ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri, og stofnanir sem hafa eftirlit með því að fyrirtæki og einstaklingar á fjármálamarkaði fari eftir regluverkinu sem um þau gilda, eins og Fjármálaeftirlitið. Þetta eru stofnanir sem eiga að rannsaka og fylgjast með hvers kyns efnahagsbrotum eins og embætti héraðssaksóknara og embætti sérstaks saksóknara forðum. Hér er ég að tala um stofnanir sem gegna hlutverki trúnaðarmanna þingsins eins og umboðsmaður Alþingis, sem á að sjá til þess fyrir hönd þingsins að framkvæmdarvaldið virði réttindi borgaranna, nú eða Ríkisendurskoðun sem á að tryggja að farið sé vel með fjármuni ríkisins. Svo ber mér auðvitað að nefna lögregluna sem almennt skal halda uppi lögum og reglum ásamt saksóknurum og dómstólum þessa lands. Síðan eru ýmsar sérhæfðar eftirlitsstofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki eins og Persónuvernd, sem á að gæta þess að réttur okkar til friðhelgi einkalífs sé virtur, eða allt annars konar stofnanir eins og Fiskistofa, sem á að gæta hagsmuna þjóðarinnar við ábyrga nýtingu auðlinda hafs og vatna, og Hafrannsóknastofnun sem á að tryggja, t.d. með rannsóknum á stærð fiskstofna, á að við göngum ekki um of á þessar sömu auðlindir .

Virðulegur forseti. Ég kem hérna upp vegna þess að allar þær mikilvægu stofnanir sem ég hef talið upp og tryggja eiga að allir sitji við sama borð, að við greiðum sanngjarnan skerf til samfélagsins sem ól okkur upp, að við förum að þeim lögum sem Alþingi setur, að réttindi borgaranna séu virt, hafa í rauninni aldrei fengið það fjármagn og þann stuðning sem þær þurfa til að geta sinnt mikilvægu hlutverki sínu. Það er svo sem ekkert öðruvísi við þetta frumvarp en hin ýmsu fjárlagafrumvörp síðastliðinna ára. Ekki stendur til að bæta í og fyrir liggur að mörgum þessara stofnana er gert mjög erfitt fyrir að sinna störfum sínum vegna skorts á fjármagni og mannafla. Með öðrum orðum er þeim sífellt sniðinn mjög þröngur stakkur. Mér sýnist að gróflega áætlað hafi fjárframlög til helstu eftirlitsstofnana ríkisins staðið í stað allt frá árinu 2013. Framlögin, þ.e. þegar þau eru uppreiknuðu eftir verðlagi hvers árs, standa í stað. Þau eru ekki aukin og aldrei virðist mér sem tryggt sé að þau geti starfað með sem bestum hætti. Spurningin er náttúrlega: Hversu vel viljum við gera við þessar stofnanir? Það liggur við að okkur sé farið að finnast eðlilegt að t.d. lögreglan sé alltaf undirmönnuð og geti ekki sinnt öllum þeim verkefnum sem á borð hennar rata, því að það hefur hreinlega staðið yfir svo lengi.

Í því samhengi vil ég sérstaklega ræða getu þessara stofnana til að standa í frumkvæðisathugunum. Með frumkvæðisathugun meina ég getu þeirra til að taka upp mál að eigin frumkvæði og hafa virkt eftirlit með þeim þáttum sem þeim ber að hafa eftirlit með.

Tökum nokkur dæmi. Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað sagt okkur á þinginu að hann skorti aukið fjármagn til að sinna frumkvæðisathugunum, hann hafi ekki starfsfólkið til þess. Þrátt fyrir þetta sá meiri hlutinn sér ekki fært að styðja tillögur okkar Pírata um auknar fjárheimildir til handa umboðsmanni Alþingis svo að hann gæti ráðið tvo starfsmenn í frumkvæðisathuganir. Samt er þetta trúnaðarmaður þingsins sem við eigum að nafninu til að treysta til þess að verja réttindi borgaranna fyrir ágangi framkvæmdarvaldsins.

Hlutverk Persónuverndar er orðið margfalt mikilvægara í þjóðfélaginu eftir samþykkt persónuverndarlöggjafar hér á síðasta ári en engu að síður var klinki bætt við rekstrarfé stofnunarinnar, þrátt fyrir að hún beri ábyrgð á eftirliti með öllum brotum gegn persónuvernd á landinu. Þarna er nauðsynlegt að bæta verulega í. Persónuvernd bjó við langvarandi fjársvelti í fjölda ára, svo miklu að Eftirlitsstofnun EFTA sá ástæðu til að hóta íslenska ríkinu dómsmáli vegna þess að stofnunin gat með engu móti gert frumkvæðisathuganir.

Þegar kemur að vörnum gegn peningaþvætti er orðið mjög augljóst, í kjölfar þess að Ísland var sett á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki, að á Íslandi voru svo gott sem engar varnir gegn peningaþvætti að finna. Fjármagni var einfaldlega ekki varið í það að viðhalda virku eftirliti með mögulegu peningaþvætti. Í nýlegri umfjöllun Kjarnans má lesa að sumarið 2015 starfaði einn maður á skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu sem kölluð var peningaþvættisskrifstofa áður en hún var færð á borð héraðssaksóknara það ár. Í Kjarnanum er þetta útskýrt, með leyfi forseta:

„Í kjölfar þess að alþjóðlegu samtökin Financial Action Task Force (FATF) gáfu peningaþvættisvörnum Íslands falleinkunn í úttekt sem var birt í apríl 2018 var ráðist í miklar umbætur á starfsemi hennar og starfsfólki fjölgað til muna. Fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti og eftirlit með starfsemi innan bankanna sjálfra hefur verið eflt. Innleiðing þess kerfis er þó ekki að fullu tilbúin og ekki er búist við því að hún klárist fyrr en á næsta ári.“

Hugsið ykkur að enn þann dag í dag hafa eftirlitsstofnanir okkar ekki þau kerfi sem þær þurfa til að taka við tilkynningum um mögulegt peningaþvætti. Það mætti halda að við byggjum hérna á árinu 1995. Það kom enda ekki í veg fyrir grálistunina að grípa allt of seint í rassinn til að tryggja að nægilegt eftirlit væri með peningaþvætti á Íslandi, og það er náttúrlega ekki enn þá komið. Sömu sögu má reyndar segja um embætti héraðssaksóknara sem horfði upp á tæpan 750 millj. kr. niðurskurð árið 2013 og óskar nú eftir viðbótarframlagi fyrir sex starfsmenn fyrir árið 2020 og þarf að vona að ríkisstjórnin verði við því vegna þess að ekki fær stofnunin það staðfest í fjárlögum 2020. Kannski þarf héraðssaksóknari að bíða í níu mánuði eftir fjárframlagi frá hæstv. fjármálaráðherra, rétt eins og skattrannsóknarstjóri þegar hún fór fram á fjárframlag til að kaupa gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum um árið. Ég vona auðvitað að þau þurfi ekki að bíða jafn lengi á þeim bænum, virðulegi forseti.

Á meðan ég man er héraðssaksóknari tæknilega séð eina embættið á Íslandi sem hefur með höndum einhvers konar lögsögu yfir pólitískri spillingu á Íslandi. Við höfum enga stofnun, enga deild, enga sérhæfða aðila í stjórnsýslunni sem hafa eftirlit hafa með pólitískri spillingu á meðan hún lýsir sér ekki nánast beinlínis í því að lobbíisti og ráðamaður skiptist á peningum í brúnu umslagi í einhverju húsasundi, sem virðist vera eina skilgreiningin sem vekur upp einhvers konar vilja til að rannsaka mögulegar spillingu á Íslandi.

Gleymum svo ekki Fiskistofu, virðulegi forseti, fyrst ég minntist á hana í tilefni dagsins. Það sem við vitum, með leyfi forseta:

„Á meðan gerðar eru alvarlegar athugasemdir við frammistöðu og burði Fiskistofu til að takast á við verkefni sín og framfylgja lögum um stjórn fiskveiða má einnig lesa um það í skýrslunni “ — skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég vitna í hér á eftir — „hvernig starfsmönnum stofnunarinnar hefur fækkað um 29 prósent frá árinu 2008, eftirlitsmönnum fækkað um 24 prósent frá 2008 og voru þeir í árslok 2017 aðeins 22.“

Í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar um stöðu Fiskistofu, sem kom út eftir undarlegan og óútskýrðan flutning stofnunarinnar til Akureyrar hér um árið, kemur fram, með leyfi forseta:

„Eftirlit Fiskistofu með vigtun, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda styður ekki með viðunandi hætti við markmið laga um stjórn fiskveiða og laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Eftirlitið er í eðli sínu erfitt í framkvæmd og snýr að starfsemi þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Benda verður á að stjórnendur Fiskistofu telja að stofnunin sé og hafi verið undirmönnuð miðað við fjölda og umfang eftirlitsverkefna.“

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar voru sömuleiðis liggur við rétt í þessu að lýsa því yfir að yfirstandandi niðurskurður og uppsagnir myndu gera stofnuninni töluvert erfiðara fyrir að sinna mikilvægu starfi sínu.

Virðulegur forseti. Ég spyr mig reglulega hvers vegna ríkisstjórnir þessa lands vilja ekki að þessar stofnanir virki sem skyldi. Ég spyr mig hvers vegna varnir gegn peningaþvætti voru ekki í lagi í fleiri ár. Ég spyr mig hvers vegna við höfum enga stofnun sem hefur það hlutverk að rannsaka spillingu. Ég spyr mig hvers vegna við viljum ekki að héraðssaksóknari hafi öruggt fjármagn til frambúðar til að fyrirbyggja að brotastarfsemi eins og sú sem birtist okkur í Samherjaskjölunum eða Panama-skjölunum endurtaki sig ekki, eins og við sjáum hér aftur og aftur. Ég spyr mig að því öllu og velti fyrir mér hvort svarið sé að það sé til þess að sumir megi halda áfram að græða á daginn og grilla á kvöldin.