150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög athyglisverð ræða í 3. umr. frá stjórnarþingmanni en ágæt fyrir sinn hatt. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig honum lítist á þennan vandræðagang, sem ég vil kalla svo, þegar kemur að fjárveitingum til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra og hvernig fjárlaganefnd er einhvern veginn úrræðalaus þegar hæstv. fjármálaráðherra segir að hann ætli bara að nýta einhverja varasjóði til þessa og skammta svona eftir hentisemi þegar kemur að rannsókn embættanna á stóru og flóknu máli. Héraðssaksóknari hefur m.a. sagt að hann geti ekki sinnt því nema fá fleiri starfsmenn og það bíði 100 mál á hans borði og 60 af þeim eru skattalegs eðlis og mér er sagt að sum þeirra séu úr Panama-skjölunum, sem er lýsandi fyrir stöðuna hjá embættinu. Ef embættið fær ekki aukið fjármagn þarf að vísa einhverjum öðrum málum frá sem lenda þá í fyrningu. Það getur verið mjög hentugt og gott fyrir suma en þannig viljum við ekki að kerfin okkar virki. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um það að rétta leiðin væri sú að áætla fyrir ákveðnum fjármunum fyrir embættin til að sinna viðbótarálaginu á árinu 2020, leggja þá tillögu fram fyrir þingið og fá hana samþykkta?