Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:59]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur andsvarið. Ég er ekki sammála þingmanninum um að það sé einhver sérstakur vandræðagangur í gangi. Ég er hins vegar sammála þingmanninum í því að það mál sem hún nefndi, Samherjamálið, er algerlega fordæmalaust og er mikið áfall fyrir íslenskt samfélag að mál eins og það komi upp. Nú liggur fyrir að rannsókn er hafin hjá sérstökum saksóknara og að því er mér skilst hjá skattrannsóknarstjóra og auðvitað er líklegt, við getum alla vega sagt það á þessari stundu, að það muni hljótast af því einhver vinna. Ég vil hins vegar taka undir það sem hefur m.a. komið áður fram í umræðunni um þetta að það er afar mikilvægt að þingið segi ekki beinlínis, skulum við segja, til um að við sem fjárveitingavald ætlumst til að dómsvaldið rannsaki tiltekin mál. Sú beiðni verður alltaf að koma frá dómsvaldinu: Við erum að drukkna í verkefnum eða við erum með mikið af verkefnum og þess vegna þurfum við að biðja um meira fjármagn. Á það hefur hins vegar líka verið bent í umræðunni að þessar stofnanir sem við nefndum eru með umtalsverðar fjárveitingar. Nú er ég ekki í fjárlaganefnd sjálfur en mér skilst að þetta sé á bilinu 5 milljarðar allt í allt sem þessi þrjú embætti hafa af fjármunum og ríflega 300 starfsmenn. (Forseti hringir.) Á fyrstu stigum og þegar ekki er komin nein beiðni til nefndarinnar þá veit ég ekki hvort nefndin eigi að hlaupa til (Forseti hringir.) og ákveða fjárveitingu. Sú leið sem hefur verið nefnd væri kannski, alla vega á þessu stigi málsins, skynsamlegri.