150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist á hv. þingmanni að hann viti ekki um minnisblaðið sem héraðssaksóknari hefur lagt fram til dómsmálaráðuneytisins og fór þaðan til fjármálaráðuneytisins og vitað er um beiðni hans og mat á stöðu embættisins. En látum það liggja á milli hluta.

Herra forseti. Mér þætti skemmtilegt ef hv. þingmaður hlakkaði jafn mikið til að greiða atkvæði með tillögu Samfylkingarinnar um aukið fjármagn til þessara embætta eins og staðan er nú og vitað er um beiðnina o.s.frv., og hann segist hlakka til að greiða fjárlagafrumvarpinu atkvæði sitt, sem hann gerir ráð fyrir að verði á morgun og hann verði mjög glaður og stoltur.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé stoltur yfir því hvernig hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar skilja öryrkja og aldraða eftir í þessu frumvarpi. Við hér, löggjafinn, sjáum um að samþykkja kjör þess fólks sem hefur ekki beðið um að vera í þeirri stöðu sem það er í. Það er of margt af okkar fátækasta fólki sem þarf að reiða sig á Tryggingastofnun og greiðslur þaðan og þarf að lifa á 248.000 kr. á mánuði. Lífskjarasamningurinn gerir ráð fyrir því að lægstu launataxtar séu í 317.000 kr. á árinu 2019 og lægstu launataxtar muni hækka upp í 341.000 frá 1. apríl á næsta ári og launatryggingin í 335.000 kr. Munurinn þarna eru tugir þúsunda og bilið á milli þeirra sem þurfa að treysta (Forseti hringir.) eingöngu á greiðslur Tryggingastofnunar og lægsta launataxtans er (Forseti hringir.) 80.000 kr. á árinu 2020. Er hv. þingmaður stoltur af þessu og verður hann glaður þegar hann (Forseti hringir.) ýtir á já-hnappinn, með 3% hækkun til þessa hóps?