Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjárheimildarbeiðnir koma til fjárlaganefndar, þær eru sendar beint til ráðuneyta með þeim skilaboðum til þeirra sem senda inn beiðnina að hún eigi að fara í gegnum ráðuneytin. Þess vegna er þetta minnisblað sem er rætt hérna um hjá dómsmálaráðherra, í ráðuneytinu, í réttum farvegi. En það hefur ekki borist frá ráðuneytunum eða ríkisstjórninni inn til fjárlaganefndar þannig að sú beiðni hefur stoppað í ríkisstjórn, að það vanti fjárheimildir til að sinna þeim verkefnum sem héraðssaksóknari og fleiri hafa gert athugasemd við. Það er ekki þeirra að senda beiðni um peninga inn til fjárlaganefndar. Þeir eru að gera þetta hárrétt, senda til ráðuneytanna sem greina — því að þeir eru með alla sundurliðunina á fjárlögum sem við fáum ekki — hvernig þetta eigi við og síðan er okkur sagt í ræðum á þingi að það sé nægur peningur fyrir þessu en við sjáum hann hvergi. Við reynum að spyrja: Bíddu, hvernig passar það saman miðað við allt annað sem við sjáum hérna og er verið að segja við okkur með varasjóði og því um líkt? Það passar ekki. Þannig að þegar það kemur fjárheimildarbeiðni til ráðuneytanna sem senda hana ekki áfram til fjárlaganefndar, þá eru þar greinilega einhver vandamál sem við stöndum frammi fyrir og væri áhugavert að fá útskýringu á. Af hverju stoppar þetta hjá ríkisstjórninni?