Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um tiltekið mál. Þetta snýst um það að innihald minnisblaðsins segir að það vanti 6–8 til að glíma við málaálag í heildina og óháð einstökum málum. Það er mjög lýsandi að þingmaður segist ekki hafa hugmynd og ekki geta svarað svara þessu því að almennt séð á það einmitt við um fjárlagafrumvarpið, það er bara gjörsamlega ógagnsætt hvað þetta varðar. Vitum við í rauninni að það vanti fé eða sé svigrúm í hverju máli og hverjum málaflokki fyrir sig? Nefnilega ekki.

Annað sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um, af því að hann talaði um nýja Landspítalann og framkvæmdina þar: Nú erum við að horfa fram á 5 milljarða hliðranir á fjármagni til þeirrar uppbyggingar. Ekki hefur komið neitt fram um að þetta verði ódýrara eða dýrara eða neitt svoleiðis í framkvæmd, líklegra er að þetta verði dýrara af því að það eru ekki inni í þessu endurbyggingar, sem sagt uppfærsla á eldri byggingum, þannig að þá á eftir að taka þann kostnað með eftir á. En nú er búið að færa 5 milljarða — 1,5 milljarð 2019 og 3,5 milljarð á næsta ári — og okkur er sagt á sama tíma að þetta eigi ekki að fresta verkefninu neitt. Það eina sem það segir mér er að það svigrúm sem er verið að hliðra til, bæði á þessu ári og 2020, inniheldur framkvæmdasvigrúm. Ef maður skoðar lóðina er hægt að vinna áfram stóran hluta hennar þó að það sé verið að klára uppsteypunina á meðferðarkjarnanum. Það myndi segja okkur að ef við færum í þær hliðstæðu framkvæmdir væri hægt að klára verkefnið fyrr og ná þeim ábata sem hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni að væri hægt að ná í þessari nýframkvæmd. Það hefur verið játað fyrir okkur að það væri hægt að klára þetta fyrr en það er ekki gert. Það er verið að hliðra til meira álaginu á seinni árin og við vitum alveg að meira álag og fleiri verkefni geta valdið meiri kostnaði eða seinkun.