Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er farið að hilla undir lok þessarar 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2020 og ég verð að segja að þrátt fyrir að vera þingmaður með ágætisþingreynslu hefur verið áhugavert að fylgja frumvarpi til fjárlaga allt frá því að það er lagt fram og þar til það kemur til 3. umr. í gegnum vinnu í fjárlaganefnd, hvar ég sit nú í fyrsta skipti.

Mig langar að byrja á því að segja að heilt yfir er ég ánægð með þessi fjárlög. Í þeim er tekið á málum sem skipta máli. Það er verið að auka í á stöðum sem skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélag okkar og þegar öllu er á botninn hvolft er það jú í rauninni það sem fjárlög snúast um, þau eru uppskrift að því hvernig við ætlum að reka samfélag næsta árið. Skattkerfisbreytingarnar sem verið er að leggja til sem ganga út á það að koma á fót þriggja þrepa skattkerfi tel ég að skipti gríðarlega miklu máli því að þetta skattþrep mun nýtast best þeim sem hafa lægstu tekjurnar. Það er ekkert hægt að skauta yfir það, að ég tel, og segja að þetta sé eingöngu verkalýðshreyfingunni að þakka. Þetta er vissulega verkalýðshreyfingunni að þakka en er líka partur af því að það voru tveir aðilar sem skrifuðu undir lífskjarasamning sem sameinuðust þar um þá sýn að það þyrfti að styrkja stöðu þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Að mínu mati er það bæði góð pólitík sem stunduð er hér á Alþingi en líka góð verkalýðspólitík. Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli og trúi því og treysti að hér með séum við að festa skattkerfi með fleiri skattþrepum í sessi því að í mínum huga er það gríðarlega mikið réttlætismál.

Hér á eftir mun hæstv. félagsmálaráðherra mæla fyrir frumvarpi um lengingu fæðingarorlofs og það er annað mál sem skiptir gríðarlega miklu máli til þess að jafna kjörin. Fjármagn vegna þessa frumvarps er tryggt í fjárlagafrumvarpinu. Með því verður fæðingarorlofið lengt, fyrst í tíu mánuði og svo er stefnan að lengja það í 12 mánuði. Þetta skiptir máli til að jafna kjörin, enda hefur margoft verið bent á það að lenging fæðingarorlofsins og að brúa þannig umönnunarbilið sé eitt af því sem er mikilvægt að gera til þess að bæta kjör barnafjölskyldna. Og það kom nú fram þegar frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram að þar þarf að bregðast við því að fleiri hafa nýtt sér að taka fæðingarorlof þannig að útgjöldin voru meiri en gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári. Það segir okkur að það eru fleiri að nýta sér kerfið og fleiri börn að fæðast og ég myndi líta á það þannig að það sem er að gerast í samfélaginu og það sem er að gerast í fjárlagafrumvarpinu sé í takt.

Það hefur líka verið farið í gegnum það hvernig verið er að auka framlög til heilbrigðismálanna og var enn aukið í á milli 2. og 3. umr. í ákveðna liði heilbrigðiskerfisins til að styrkja það og áfram er unnið að því markmiði að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni, það er önnur áhersla í fjárlagafrumvarpinu sem ég tel skipta mjög miklu máli.

Þá er einnig verið að auka framlög til umhverfismála, ekki síst til mála sem snerta loftslagsmálin sem er auðvitað risastórt samtímamál sem er svo mikilvægt að sé verið að bregðast við í fjárlagafrumvarpinu.

Ég hef bara stiklað á stóru í nokkrum málaflokkum sem ég tel að skipti máli fyrir okkur sem samfélag inn í næsta árið. Það er samt mikilvægt að tala líka um það sem má segja að sé allra stærsta myndin þegar kemur að fjárlögum næsta árs. Hér er spáð stuttu samdráttarskeiði og það er hægt að bregðast við því á margvíslegan hátt. Það hefði t.d. verið hægt að bregðast við því með beinum niðurskurði í fjárlögum eða almennum niðurskurði á milli umræðna í fjárlögum. Það er hins vegar ekki verið að gera það heldur er stefnumótunin sú að leyfa ríkisfjármálunum að fara í halla meðan niðursveiflan gengur yfir. Það er gríðarlega mikilvægt pólitískt atriði til að halda til haga að þannig sé brugðist við þegar við sjáum fram á niðursveiflu eða samdrátt. Það gerist ekki bara af sjálfu sér heldur gerist það vegna þess að það er tekin ákvörðun um að gera það þannig. Mér finnst það jákvætt að í gegnum þessar þrjár umræður um fjárlagafrumvarpið hef ég ekki orðið vör við að neinn sé að fetta fingur út í þetta.

Á sama tíma er það þó þannig að eðlilega sjáum við breytingartillögur í ýmsar áttir við fjárlagafrumvarpið. Það tel ég að sé eðlilegt. Það eru margir ólíkir flokkar sem ekki bara mynda þessa ríkisstjórn heldur sem mynda líka stjórnarandstöðuna og þess vegna er ekkert skrýtið við það að tillögurnar sem lagðar eru fram til breytinga séu úr ýmsum áttum. Við höfum heyrt ræður hér í dag, annars vegar um að það sé verið að setja of mikið í suma málaflokka en aðrir segja hins vegar að bæta þurfi við í öðrum málaflokkum. Gott og vel. Það er allt í lagi. Út á þetta gengur pólitík, að draga fram og tala fyrir mismunandi sýn. Ég verð þó að viðurkenna að sumar breytingartillögur koma mér meira á óvart, getum við sagt, en aðrar. Þá á ég sérstaklega við tillögur sem hafa komið fram um þau mál sem snúa að því hvernig við ætlum að bregðast við loftslagsvánni. Mér finnast þær ekki alveg vera í takti við þann stað sem við erum á, hvorki sem samfélag né á heimsvísu. Ég verð að viðurkenna að ég verð fyrir vonbrigðum með það. Það eru einnig ýmsar tillögur um það hvar megi auka enn frekar í og það er í sjálfu sér heldur ekkert skrýtið við. Það er aldrei búið að reka samfélag, það er eilífðarverkefni. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við séum með nokkuð góðan ballans í fjárlagafrumvarpinu. Það verður haldið áfram í vinnslu fjármálaáætlunar í því hvernig við ætlum að auka jöfnuð og gera samfélagið okkar enn betra. Þannig er það alltaf.

Mig langar að segja við lok 3. umr. að ég hlakka bara nokkuð til að greiða lokaatkvæði um þessi fjárlög. Stóru breytingarnar voru vitaskuld gerðar við 2. umr. en við í meiri hluta fjárlaganefndar leggjum engu að síður til nokkrar breytingar hér við 3. umr. og þær mun ég styðja á morgun.