150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra kærlega fyrir kynninguna á frumvarpi um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Ég fagna auðvitað þessu frumvarpi sem er í takt við það sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði til 2012 og var samþykkt af Alþingi 2012 en fellt niður af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í desembermánuði 2013. Mér finnst mjög ánægjulegt að sjá á þessu frumvarpi að Framsóknarflokkurinn ætlar að koma með okkur jafnaðarmönnum til nútímans. En ég spyr kannski fyrst: Megum við treysta því að þetta frumvarp fái að lifa, jafnvel út þann tíma sem því er ætlað að auka réttindi barna til samveru með foreldrum sínum, þ.e. út næstu tvö ár sem ríkisstjórnin hefur ætlað sér að taka í að lengja fæðingarorlofið upp í 12 mánuði? Svo vil ég spyrja að auki hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að Alþingi Íslendinga, sem er jú löggjafinn, eigi að vinna þetta frumvarp með sómasamlegum hætti þegar það berst hingað inn á Alþingi á síðustu tveimur vikum haustþings.