150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Ég spyr þá aftur: Má þá ætla að allir stjórnarliðar séu með á þessu þannig að ekki þurfi að treysta á atkvæði stjórnarandstöðuflokka í þessu máli eins og fjölmörgum öðrum sem ríkisstjórnin er að koma í gegn? Þá vil ég einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi litið yfir þær umsagnir sem bárust á þessum tveimur vikum, sem er afskaplega skammur tími í samráðsgátt, en það voru 27 umsagnir sem bárust og a.m.k. 22 þeirra — ég var nú hætt að telja — voru á einn veg. Vil ég spyrja hæstv. ráðherra, fyrst það var hvorki tekið neitt tillit til þeirra umsagna né tillit tekið til umsagna BSRB og BHM sem einnig sendu inn umsagnir, hvenær hann telji þá að eigi að taka tillit til þeirra sem hafa eitthvað um málið að segja. Það virðist ekki gert ráð fyrir því að málið komist í eðlilegt umsagnarferli hér á þinginu, eigi að afgreiða það fyrir áramót, nema þá að það verði ekki af jólafríi starfsmanna og þingmanna þetta árið. Ef við teljum bara þá daga sem eru fram að jólum er um að ræða mögulega fjóra nefndafundardaga í heildina og þá ekkert umsagnarferli.

Ég vil bara spyrja hvort hæstv. ráðherra telji að þetta séu boðleg vinnubrögð, að leggja fram frumvarp tveimur vikum fyrir jólahlé þingsins og ætlast til þess að þingið veiti fullnægjandi málsmeðferð á eins mikilvægu frumvarpi og hér er um að ræða.