150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Það fer vel á því að ræða heilbrigðismál og hvernig þau eru best skipulögð rétt áður en við göngum til atkvæða um fjárlagafrumvarpið. Heilbrigðismál eru, eins og allir þekkja, einn af stærstu þáttum útgjalda ríkissjóðs. Í nýsamþykktri heilbrigðisstefnu er lögð áhersla á að veita heilbrigðisþjónustu á þann hátt sem okkur hefur lánast hingað til, að Sjúkratryggingar Íslands annist kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins með samningagerð. Þau kaup eiga svo að byggjast á þarfagreiningu og miðast við þarfir íbúanna í landinu. Þarna hefur kannski helst skort á við framkvæmdina, þ.e. við þarfagreininguna og þessa skilgreiningu.

Í heilbrigðisstefnunni er sem sagt gert ráð fyrir skilvirkum þjónustukaupum með aðgengi þeirra sjúkratryggðu í huga að vel skilgreindri heilbrigðisþjónustu á grundvelli þjónustutengdrar fjármögnunar. Þessi stefna sem samþykkt var af Alþingi er skýr um það hvernig við viljum veita heilbrigðisþjónustu og segir í raun að gera eigi samninga við þá sem geta veitt þá heilbrigðisþjónustu sem þörf er fyrir, óháð því hvort það sé opinber rekstur eða einkarekstur. Einkarekstur er, eins og við þekkjum, sjálfseignarstofnanir á vegum sveitarfélaga, til að mynda félagasamtök, heilbrigðisstarfsfólkið sjálft og fleiri aðilar.

Ekki er verið að tala um einkavæðingu þar sem sjúklingurinn greiðir sjálfur, það er munurinn á einkavæðingu og einkarekstri þar sem gert er ráð fyrir kaupum ríkisins á þessari þjónustu en ekki þeirra sjúkratryggðu. Þar liggur munurinn á einkavæðingu og einkarekstri, að það er ríkið sem kaupir. Að því sögðu hef ég gríðarlegar áhyggjur af öllum þeim lausu samningum aðila í heilbrigðisþjónustu við Sjúkratryggingar Íslands um þá heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggðir skattgreiðendur um allt land þurfa á að halda, allt samningar sem hafa verið hagkvæmir fyrir ríkissjóð og hafa um leið tryggt sjúkratryggðum gott aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Má þar nefna sjúkraþjálfara, Læknafélag Reykjavíkur, hjúkrunarheimilin, fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, svo andstaðan við að njóta þjónustu aðila eins og Klíníkurinnar.