150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Upp úr kl. 15.30 munum við greiða atkvæði um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það er mér sönn ánægja að segja ykkur frá því að þrír flokkar í stjórnarandstöðu leggja fram breytingartillögu sem snýr að því að koma lágmarksframfærslu aldraðra og öryrkja upp í nákvæmlega það sem það er, lágmarksframfærsluviðmið ráðuneytisins. Þetta eru Píratar, Flokkur fólksins og Samfylkingin, 15 þingmenn, hátt í fjórðungur þingmanna, sem taka saman höndum hér. Mér finnst okkur vera að fjölga í bátnum sem róum í þessa réttlætisátt. Ég el þá von í brjósti að okkur muni bara fjölga áfram og enda svo með því að við verðum hreinlega öll komin í þennan stóra bát og róum öll sameiginlega að því markmiði að útrýma fátækt, útrýma þessu ótrúlega ósanngjarna kjaragliðnunarbili sem hefur orðið á síðustu árum hjá þeim einstaklingum sem þurfa að reiða sig á framfærslu almannatrygginga.

Ég býst ekki við því að þeir sem ekki eru með okkur á þessari breytingartillögu í dag greiði henni brautargengi, sérstaklega ekki ríkisstjórnarflokkarnir, en ég hvet ykkur öll til að fylgjast vel með því hvernig þingheimur tekur utan um aldraða og öryrkja sem sitja hjá garði og biðja um aðstoð til að hafa lágmarksframfærslu, til að geta lifað með lágmarksreisn, því að við höfum sett þau í fátæktargildru sem nú virðist vera komin sprunga í. Svo sannarlega vona ég að hún eigi eftir að brotna algjörlega utan af þeim áður en þessi ríkisstjórn fer frá völdum. (Forseti hringir.) Eigum við ekki að lofa þeim að njóta vafans?