150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þingmenn hafa komið víða við í þessum umræðum eins og verða vill þegar til umræðu eru störf þingsins. Ég ætla fyrst og fremst að bregðast við ummælum hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar um stjórnarskrármál áðan. Ég tel að það sé alveg ástæða til að rifja upp hér í þessum þingsal að í gangi er vinna sem lýtur að endurskoðun á stjórnarskránni. Það liggur auðvitað fyrir að einstakir flokkar hafa mismunandi afstöðu til þess hversu langt eigi að ganga og hversu mikið eigi að endurskoða og hvernig eigi að vinna málið. Hins vegar eru málin í þeim farvegi með aðild formanna allra stjórnmálaflokka að það er verið að taka þetta fyrir áfangaskipt. Það er verið að skoða tiltekin atriði núna og liggur fyrir verkáætlun um skoðun annarra atriða í framhaldinu. Með þessu móti er reynt að nálgast það með raunhæfum hætti hvernig hægt sé að gera breytingar á stjórnarskránni án þess að gefa sér að niðurstaðan hljóti að vera allt eða ekkert, án þess að menn gefi sér endilega fyrir fram að nauðsynlegt sé að endurskrifa öll ákvæði núgildandi stjórnarskrár og bæta 35 nýjum við eins og t.d. var gert í tillögu stjórnlagaráðs sem lá fyrir hér fyrir sjö til átta árum. Það er ekkert nauðsynlegt. Það er alveg hægt að taka einstök atriði fyrir og breyta atriðum sem eru augljóslega úrelt; menn hafa nefnt 30. gr. sem felur í sér heimild til forseta til að víkja til hliðar lögum. Allir eru sammála um að það sé alveg ástæða til að breyta þessu eða færa ákvæði forsetakaflans nær veruleikanum. Það er alveg hægt að gera það án þess að fara í þær víðtæku breytingar sem sumir hafa lagt til.

Það er líka hægt að taka ný ákvæði fyrir eins og um auðlindir í þjóðareigu, náttúruvernd og hitt og þetta (Forseti hringir.) án þess að umbylta öllu hinu í leiðinni. Það er alveg hægt að gera það. (Gripið fram í.)