150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Herra forseti. Listi umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra verður ekki birtur samkvæmt ákvörðun stjórnar RÚV. Ástæðan er sú að það gæti hindrað mjög hæfa umsækjendur í að sækja um starfið. Þetta er mjög sérstakt í ljósi þess að þessi ágæti fjölmiðill hefur verið upptekinn af gegnsæi annars staðar sem greinilega gildir ekki um hann sjálfan. Í sjálfu sér er ég eiginlega sammála stjórn RÚV, það getur verið mikilvægt að birta ekki lista yfir umsækjendur, en ég held að það ætti að gilda líka annars staðar í stjórnsýslunni, t.d. hjá dómstólunum. Það er mikilvægt og miklu mikilvægara en hjá RÚV að þar fáist mjög hæfir umsækjendur. Hér ættum við að taka það til umfjöllunar hvort við ættum að breyta lögunum og heimila beint að í stjórnsýslunni og annars staðar verði ekki birtur listi umsækjenda.

Annað sem hefur truflað mig svolítið er að það er þekkt í stjórnsýslunni, hefur gerst svolítið, að það er skipað í embætti æðstu embættismanna ríkisins án auglýsingar. Undir vissum kringumstæðum er það heimilt, þ.e. með færslu innan Stjórnarráðsins, en það er líka gert án þess að viðkomandi hafi starfað innan Stjórnarráðsins. Ég hef efasemdir um að það standist og þykist vita að það standist ekki. Það er samt gert. Nú þarf greinilega að fara í endurskoðun (Forseti hringir.) á lögunum hvað þetta varðar.